19. janúar 2022
19. janúar 2022
Samningur um þjónustu talmeinafræðinga – ákvæði um tveggja ára starfsreynslu fellt brott
Sjúkratryggingar Íslands hafa framlengt samning um þjónustu sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga um sex mánuði og fellt brott kröfu um tveggja ára starfsreynslu líkt og talmeinafræðingar hafa lagt á ríka áherslu.
Jafnframt er gert ráð fyrir að framlengingartíminn verði nýttur til að vinna að útfærslu gæðavísa um þjónustuna, forgangsröðun og fleiru til að tryggja sem besta þjónustu við notendur. Starfshópur skipaður af heilbrigðisráðherra vinnur nú að endurskoðun á skipulagi þjónustu talmeinafræðinga með heildstæðum tillögum um þjónustu þeirra við börn. Reiknað er með að nýir samningar taki við að sex mánuðum liðnum og byggist á niðurstöðu framangreindrar vinnu.
„Þetta er mikilvægt skref. Ég bind miklar vonir við að vel takist til með nýjan samning að sex mánuðum liðnum sem færir þessa mikilvægu þjónustu í gott horf fyrir þá sem á henni þurfa að halda en það eru að langstærstum hluta börn“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga segir mjög mikilvægt að samningurinn hafi verið framlengdur og að fjármagn hafi verið tryggt til að hægt væri að fella niður tveggja ára ákvæðið. Þannig skapist svigrúm fyrir aðila til að vinna áfram í sameiningu að þessari mikilvægu þjónustu og þróun hennar, ekki síst með hagsmuni barna í huga.
• Nánar um verkefni starfshópsins