27. júlí 2023
27. júlí 2023
Réttur til ellilífeyris
Vakin er athygli á að almennur lífeyristökualdur er 67 ára en ef einstaklingur bíður með að sækja um ellilífeyri fram yfir þann tíma þá er hægt að sækja um rétt sinn allt að tvö ár aftur í tímann. Sæki einstaklingur ekki um rétt sinn aftur í tímann þá hafa réttindi hans ekki fallið niður heldur nýtur hann varanlegrar hækkunar á réttindi sín í staðinn fyrir þann tíma sem töku ellilífeyris hefur verið frestað. Þá er einnig hægt að sækja um snemmtöku ellilífeyri frá 65 ára aldri, gegn varanlegri lækkun réttinda.
Lífeyrisgreiðslur byggja á að réttindi lífeyrisþega eru tekjutengd og fer því fjárhæð ellilífeyris eftir því hversu háar tekjur viðkomandi hefur samhliða greiðslum stofnunarinnar. Þannig falla réttindi til ellilífeyris ekki niður fyrr en einstaklingur er kominn með rúmlega 726 þúsund krónur á mánuði samhliða greiðslum Tryggingastofnunar. Að auki geta ellilífeyrisþegar aflað sér atvinnutekna að upphæð 200.000 kr. á mánuði án þess að skerða greiðslur lífeyris með sérstöku frítekjumarki atvinnutekna.
Fyrirkomulag greiðslna ellilífeyris byggir á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, en Tryggingastofnun fer með framkvæmd þeirra gagnvart ellilífeyrisgreiðslum.