Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

23. september 2025

Rétt næring mikilvægari hluti af meðferðum en áður

Bergþóra Lísa Björnsdóttir, næringarfræðingur og nemi í klínískri næringarfræði við Háskóla Íslands, kom í tímabundið verkefni til HSN í sumar.

Bergþóra Lísa Björnsdóttir, næringarfræðingur og nemi í klínískri næringarfræði við Háskóla Íslands, kom í tímabundið verkefni til HSN í sumar. Hún hefur á undanförnum mánuðum unnið við að útbúa fræðsluefni og klínískar leiðbeiningar um næringu sem heilbrigðisstarfsfólk í heilsueflandi þjónustu, sálfélagslegri þjónustu og heimahjúkrun HSN getur nýtt í starfi sínu. 

Innan heilbrigðisgeirans hefur skort gott aðgengi að markvissum og samræmdum upplýsingum um næringu. „Það er mikið fræðsluefni til um næringu á ýmsum stöðum, meðal annars á Landspítalanum og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, en efnið er mjög dreift og það getur  verið erfitt að átta sig á hvað hentar best hverju sinni fyrir skjólstæðinga. Ég tók því saman það opinbera og útgefna efni sem nýtist okkur í heilsueflandi þjónustunni og heimahjúkrun, nýtti einnig námsefni úr náminu mínu, flokkaði niður og bætti við nýju þar sem þurfti.“ 

Mismunandi næring eftir ólíkum þörfum 

Flokkarnir sem Bergþóra vinnur með snúa meðal annars að offitu og sykursýki 2, bæði á forstigi og lengra komið. Hún hefur jafnframt unnið efni um næringu aldraðra, bæði með áherslu á vannæringu en einnig almennar leiðbeiningar. Að auki hefur Bergþóra tekið saman leiðbeinandi efni um næringu í tilfelli átraskana, einkum hjá börnum, sem og almennar ráðleggingar sem nýtast fjölbreyttum hópum. 

Bergþóra hefur verið í góðu samstarf við heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir heilsueflandi og sálfélagslegri þjónustu og fengið gagnlega endurgjöf frá því um efnistök. Í viðtölum við skjólstæðinga kemur gjarnan í ljós hvaða fræðslu vantar, fólk spyr oft um hvaða mat það ætti að borða, hvað ætti að forðast og annað tengt mataræði. „Heilbrigðisstarfsfólk getur stundum upplifað að vera smá í lausu lofti þegar kemur að ráðgjöf til skjólstæðinga og að hafa ekki markvisst efni til að bjóða upp á. Það hefur einfaldlega vantað að safna saman viðurkenndum upplýsingum og þekkingu á einn stað innan HSN og gera þær vel aðgengilegar.“ 

Vannæring veikra og aldraðra 

Rétt næring er mikilvæg þegar kemur að veikum og öldruðum, en mikilvægt er að greina og fyrirbyggja vannæringu meðal skjólstæðinga. Notast er við skimunarlista til að greina einstaklinga í áhættuhópi til að geta gefið ráðleggingar, eins og til dæmis um viðbótarnæringu eða annað. „Þegar fólk eldist eða veikist breytast oft matarvenjur. Sumir léttast mikið án þess að hafa áhyggjur af því, en ástæður geta legið í næringu eða viðvarandi meltingarvandamálum sem er ekki eðlilegt líkamsástand.“  

Skortur á fræðsluefni um offitu og átraskanir 

Bergþóra komst að því að skortur er á fræðsluefni sem nýtist í tengslum við meðferð vegna offitu. „Það vantaði hreinlega verkfæri til að styðja við þessa vinnu. Starfsfólk í heilsueflandi þjónustu fær margar spurningar sem tengjast ofþyngd og með þessu efni getur það betur frætt fólk, til dæmis um hvernig lesa á innihaldslýsingar á matvörum. Þetta er lifandi gagnagrunnur sem við bætum í eftir því sem reynsla safnast.“  

Svipaða sögu er að segja um fræðsluefni fyrir einstaklinga með átröskun, einkum börn. „Átraskanir geta verið margbreytilegar og nýjar rannsóknir og klínískar leiðbeiningar birtast reglulega. Því er mikilvægt að til sé uppfært efni sem hægt er að nýta í starfi og að starfsfólki sé gefinn kostur á að nýta næringarfræðina markvissar en áður. Við erum að tala um samvinnu um bestu meðferð fyrir skjólstæðing, út frá líkamlegum, sálfélagslegum og öðrum þáttum og næring skiptir þar miklu máli.“ 

Næringarfræði sífellt mikilvægari hluti af meðferðum  

„Ég hóf nám í næringarfræði árið 2021 og hef fundið fyrir aukinni vitund um mikilvægi greinarinnar og hlutverk næringarfræðinga innan heilbrigðiskerfisins,“ segir Bergþóra. „Því miður er heilsufar þjóðarinnar oft ábótavant; ofþyngd eykst og þörfin fyrir áreiðanlegar, vísindalegar upplýsingar og klínískar leiðbeiningar verður sífellt brýnni. Næring og mataræði geta gert mikið gagn í meðferðum og bæði heilbrigðisstarfsfólk og skjólstæðingar sýna aukinn áhuga á að taka þátt í eigin heilsu í gegnum mataræði.“