Fara beint í efnið

25. nóvember 2024

Rafræn samskiptagátt styrkir þjónustu við sjúklinga í veikindum

Meðvera - rafræn samskiptagátt - hefur verið tekið í notkun á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) með það að markmiði að bæta lífsgæði og heilsufar sjúklinga krabbameinslyfjameðferð.

Rafræn samskiptagátt

Gáttin, sem er hluti af krabbameinsáætlun Íslands, gerir sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki kleift að eiga samskipti í rauntíma, skiptast á fræðsluefni og fylgjast náið með einkennum og líðan.

Í krabbameinsáætluninni segir meðal annars: „Sjúklingum og aðstandendum skal boðinn aðgangur að lokaðri, gagnvirkri vefsíðu sem tengist sjúkraskrá sjúklings þar sem fram fer einstaklingsmiðuð upplýsingaveita, stuðningur og ráðgjöf.“

Hjúkrunarfræðingar á almennu göngudeildinni á SAk hafa notað Meðveru síðan í byrjun árs og lýsa góðum árangri.

Snjöll lausn fyrir skjólstæðinga

„Í gegnum Meðveru getur sjúklingur svarað spurningum um líðan og einkenni rafrænt, og hjúkrunarfræðingur getur gripið inn í ef þörf er á,“ segir Katrín Ösp Stefánsdóttir, teymisstjóri Meðveru-verkefnisins.

„Þetta er afar dýrmætt tól, sérstaklega fyrir þá sem búa fjarri heilbrigðisstofnunum. Með þessu móti getum við brugðist við í rauntíma og tryggt að sjúklingar fái viðeigandi aðstoð.“

Margvíslegur ávinningur

Rannsóknir benda til þess að rafrænar vefgáttir eins og Meðvera hafi margþættan ávinning. Þær stuðla að bættri líðan, bættum lífsgæðum og jafnvel lengri lifun sjúklinga í krabbameinsmeðferð.

„Skjólstæðingar fá aukna trú á eigin getu til að meta einkenni og þar með minnkar álag á bráðamóttöku. Endurinnlögnum fækkar, þar sem við fylgjumst vel með einkennum og grípum inn í snemma,“ segir Katrín.

Sjálfvirkni og einstaklingsmiðuð þjónusta

Meðvera nýtir sjálfvirkni til að bæta þjónustuna. Sjúklingar fá sjálfkrafa fræðsluefni í takt við þau einkenni sem þeir skrá. Auk þess er samskiptasagan vistuð í sjúkraskrá þeirra, sem auðveldar eftirfylgni. Gáttin er hluti af Heilsuveru, sem gerir hana notendavæna og aðgengilega skjólstæðingum.

Í heildina eykur Meðvera skilvirkni í samskiptum, bætir þjónustu og stuðlar að betri upplifun sjúklinga í veikindum. Hún er því mikilvæg viðbót í heilsuþjónustu á Íslandi.