6. mars 2025
6. mars 2025
Ráðherra og þingmenn heimsækja Land og skóg
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kom ásamt fylgdarliði í Gunnarsholt fimmtudaginn 27. febrúar í formlega heimsókn til Lands og skógar. Þingmenn komu líka í heimsókn í kjördæmaviku.

Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, tók á móti ráðherra ásamt fleira forystufólki stofnunarinnar. Starfsemin og verkefnin voru kynnt. Nokkur mikilvæg mál voru reifuð sérstaklega við ráðherra svo sem þær hugmyndir að setja kraft í endurheimt votlendis og aðrar landbætur á jörðum í eigu ríkisins og einnig nauðsyn þess að reisa nýtt fræhús á Vöglum til að auka framleiðslu á lerkiblendingnum Hrymi. Rætt var um fjármögnun umbótaáætlunar vegna LULUCF og tímabundin framlög til stofnunarinnar sem falla niður árið 2026. Minnt var á nauðsyn þess að unnið verði nýtt jarðvegskort fyrir Ísland og sömuleiðis eflingu hvataverkefna þar sem meðal annars hefur verið stungið upp á að efnt verði til nýrrar þjóðargjafar líkt og gert var á ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974.

Ráðherra og fylgdarlið hans sýndi mikinn áhuga á starfsemi og málefnum Lands og skógar. Þau sýndu góðan skilning á verkefnum stofnunarinnar og mikilvægi þeirra. Nú er unnið að breyttu skipulagi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sem meðal annars felst í því að fagskrifstofur verða aðeins tvær. Sú sem Land og skógur tilheyrir verður undir stjórn Björns Helga Barkarsonar.
Ásamt því að fá kynningu á starfsemi stofnunarinnar og verkefnum skoðaði ráðherra aðstöðuna í Gunnarsholti, sérstaklega þá miklu og góðu aðstöðu sem þar er til fræverkunar. Land og skógur þakkar Jóhanni Páli Jóhannssyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kærlega fyrir komuna og fylgdarliði hans.
Í kjördæmaviku komu einnig þrír þingmenn Samfylkingarinnar í heimsókn í Gunnarsholt, þau Víðir Reynisson, Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Eydís Ásbjörnsdóttir. Þeim er sömuleiðis þakkað fyrir komuna. Á skrifstofuna á Egilsstöðum kom líka Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar.
