3. júní 2024
3. júní 2024
Ráðherra heimsækir Land og skóg
Þrjú málefni voru sérstaklega viðruð við Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra í heimsókn hennar til Lands og skógar í liðinni viku. Þetta eru annars vegar tvö stór viðfangsefni sem fram undan eru hjá stofnuninni, gerð jarðvegskorts fyrir Ísland og kortlagning ræktunarlands, en hins vegar nýtt fræhús í Vaglaskógi sem nauðsynlegt er til að auka megi framleiðslu á úrvalsefniviði af lerki, svokölluðum 'Hrymi'.
Ráðherra kom í Gunnarsholt fimmtudaginn 30. maí ásamt fylgdarliði. Byrjað var á því að skoða Sagnagarð þar sem fræðast má um gróður- og jarðvegseyðingu á Íslandi og þær aðgerðir sem unnið hefur verið að frá öndverðri 20. öld til að vernda gróður- og jarðvegsauðlindir landsins og efla þær á ný. Þaðan var haldið í stutta skoðunarferð um nágrenni Gunnarsholts þar sem hvarvetna blasir við árangurinn af landgræðslu- og skógræktarstarfi í rúma öld. Staldrað var við hjá Bæjarvörðum þar sem sér heim að Gunnarsholti. Á skilti sem þar stendur með mynd af bæjarhúsum í Gunnarsholti á fimmta áratug síðustu aldar sést vel hversu mjög gróðurfarið hefur breyst til hins betra og roföflunum verið bægt frá.
Eftir hádegisverð voru húsakynni í Gunnarsholti skoðuð, meðal annars rannsóknarstofur og fræverkunaraðstaða, en að því búnu kynntu fulltrúar úr framkvæmdaráði Lands og skógar mismunandi hlutverk og svið stofnunarinnar. Ágúst Sigurðsson forstöðumaður fór yfir skipulag og starfsemi Lands og skógar og dreifingu hennar um landið. Því næst fjallaði Gustav Magnús Ásbjörnsson um endurheimt vistkerfa sem hann hefur forystu um en einnig um starfsemi fræverkunastöðvarinnar í Gunnarsholti, söfnun og vinnslu á landgræðslufræi. Gestirnir voru forvitnir um aðferðir við endurheimt votlendis og þær hindranir sem ryðja þarf úr vegi til að auka megi það starf.
Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóga og landa, sagði frá fjölþættum viðfangsefnum sem snerta þau lönd sem Land og skógur hefur umsjón með, bæði þjóðskógum og landgræðslusvæðum, en ræddi líka um þann vöxt sem fram undan er í viðarnytjum. Þar hefur Land og skógur forystuhlutverki að gegna en með tímanum taka aðrir við keflinu í afurðavinnslunni. Horfur eru á að Ísland verði sjálfbært um stóran hluta viðarafurða innan nokkurra áratuga.
Því næst fjallaði Bryndís Marteinsdóttir sviðstjóri um sjálfbæra landnýtingu sem hún fer fyrir. Þar er vöktun á ástandi gróðurs og jarðvegs fyrirferðarmikil en einnig vernd og endurheimt votlendis og margt fleira. Bryndís greindi frá því að nú væri unnið að vottunarkerfi fyrir votlendisverkefni svo þau geti gefið af sér kolefniseiningar. Hún greindi líka frá þeirri vinnu sem fram undan er í samvinnu við fjölmargar stofnanir og ráðuneyti við gerð jarðvegskorts fyrir Ísland. Sú vinna var einmitt eitt af þremur málefnum sem sérstaklega var óskað stuðnings ráðherra og ráðuneytis við.
Annað þessara þriggja mikilvægu mála var bygging nýs fræhúss á Vöglum í Fnjóskadal. Sú aðstaða skiptir miklu máli svo hægt verði að auka fræframleiðslu á lerkiblendingnum 'Hrymi' sem reynst hefur sérlega vel í skógrækt hérlendis, bæði á rýru landi og á svæðum þar sem rússalerki hefur ekki þrifist vel. Brynjar Skúlason, sviðstjóri rannsókna og þróunar, fór yfir þetta en sagði líka frá viðfangsefnum sviðsins, úttektum á skógum landsins og staðfestingu á bindingu þeirra, nýju rannsóknarverkefni nokkurra stofnana á fjölbreytni lífríkis í nýskógrækt og ýmsu fleiru.
Þriðja mikilvæga málefnið sem óskað var sérstaklega eftir umræðu um við ráðuneytið var kortlagning ræktunarlands sem Landi og skógi hefur verið falið að hafa forystu um. Eftir er að móta verkefnið og skilgreina hlutverk stofnunarinnar við útfærslu þess og framkvæmd og var ráðherra spurður út í stöðu þeirra mála.
Land og skógur þakkar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra og föruneyti hennar kærlega fyrir heimsóknina og væntir góðs af komandi samstarfi.