Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

16. janúar 2026

Óskað eftir fyrirlestrum og veggspjöldum á Fagráðstefnu skógræktar 2026

Fagráðstefna skógræktar 2026 verður haldin á Stracta Hótel Hellu 18. og 19. mars. Óskað er eftir fyrirlestrum fyrir seinni dag ráðstefnunnar ásamt veggspjöldum sem hanga munu uppi meðan ráðstefnan stendur.

Stracta Hótel Hellu.

Þema ráðstefnunnar að þessu sinni er lífið í skóginum. Fagráðstefna skógræktar er haldin í samstarfi Lands og skógar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands, Skógfræðingafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands.

Fyrirlestrar og umræður um þema mynda dagskrá fyrri dags ráðstefnunnar en seinni daginn er rými fyrir hvers kyns málefni sem tengjast skógum og skógrækt, rannsóknum, skógtækni og skyldum efnum. Sækja má um pláss í dagskránni fyrir fyrirlestra á sérstöku eyðublaði og sama eyðublaðið er notað ef fólk vill leggja til veggspjald á veggspjaldakynningu ráðstefnunnar.

  • Frestur til að skila inn tillögum að erindum er 31. janúar 2026. Öllum umsækjendum verður svarað í fyrstu viku febrúarmánaðar.

  • Frestur til að skila inn tillögum að veggspjöldum er 12. mars 2026.

Skráning á ráðstefnuna hefst seinni hluta janúarmánaðar.

Fagráðstefna skógræktar er eins og heitið gefur til kynna vettvangur þekkingarmiðlunar og umræðu í skógargeiranum. Ráðstefnan hefur verið haldin í rúma tvo áratugi og hleypur til milli landshluta frá ári til árs. Á síðasta ári var hún haldin á Hótel Hallormsstað og þar áður í Hofi á Akureyri.

Senda tillögu að erindi eða veggspjaldi