8. desember 2022
8. desember 2022
Opnunarhátíð og 30 ára afmæli H&B
Þann 17. nóv sl hélt endurhæfingadeild HVE Stykkishólmi opnunarhátíð í tilefni af endurbótum og stækkun aðstöðu deildarinnar.
Um leið var því fagnað að 30 ár eru síðan fyrstu einstaklingarnir voru lagðir inn í sérstaka bakverkjameðferð á spítalann.
Aðstaðan var tekin í notkun eftir endur- og viðbætur sl. vor en vegna ýmissa aðstæðna náðist ekki að halda upp á það fyrr en nú. Boðið var upp á opið hús hjá endurhæfingunni, léttar veitingar og kynningu á starfseminni, þróun deildarinnar og flutningar hennar innanhúss á þeim tíma sem hún hefur starfað. Þá var starf bakdeildarinnar kynnt og fólki boðið að fara um aðstöðuna og prófa sum skoðunar- og meðferðartækin. Jósep Blöndal, læknir einn af forsprakksmönnum Háls- og bakdeildarinnar bætti við fróðleik um upphaf starfsins.
Á milli 40 og 50 gestir heiðruðu okkur og má sérstaklega nefna góðar kveðjur Lionsmanna í Stykkishólmi sem styrktu deildina um 800.000 krónur til tækjakaupa. Bæjarstjóri Stykkishólms og Helgafellssveitar bar deildinni góðar kveðjur. Þá hefur deildin fengið að gjöf handa og fótahjól og Lionskonur í Stykkishólmi hafa ánafnað deildinni ágóða af kökubasar núna fyrir jólin.
Kunnum við öllum sem heiðruðu okkur þennan dag með nærveru sinni og þeim sem lögðu okkur lið við að koma þessu í framkvæmd, bestu þakkir.
Sérstakar þakkir fá einnig allir sem styrkt hafa deildina á einn eða annan hátt í gegnum tíðina.