Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

5. nóvember 2025

Öldrunarteymi á lyflækningadeild SAk

Unnið er að því að efla öldrunarlækningar á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) í takt við breyttar þarfir samfélagsins. Ljóst er að öldruðum einstaklingum fjölgar ört og hefur stundum verið talað um „silfurstorminn“ í því samhengi.

Þann 6. október hófst þriggja mánaða tilraunaverkefni þar sem sérfræðilæknar innan öldrunarlækninga sinna tíu sjúklingum á lyflækningadeild SAk. Um er að ræða bæði aldraða einstaklinga og sjúklinga í líknar- eða lífslokameðferð. Markmið teymisins er að leggja meiri áherslur á heildrænt öldrunarmat fyrir eldri einstaklinga. Fyrir þá sjúklinga sem eru í líknar- eða lífslokameðferð þá er talsverð reynsla innan teymisins varðandi slíka meðferð og leggjum við áherslu á góða einkennastillingu og stuðning við sjúklinga og aðstandendur þeirra.

„Það er mjög ánægjulegt að við getum bætt við okkur verkefnum og orðið sýnilegri inni á lyflækningadeildinni. Fyrsti mánuðurinn hefur gengið vonum framar og það eru spennandi tímar framundan innan öldrunarlækninga á SAk,“ segir Valgerður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í öldrunarlækningum.