Fara beint í efnið

16. október 2024

Öflugt móttökuteymi á Selfossi sinnir tugþúsundum heimsókna

HSU á Selfossi // Greta Sverrisdóttir, móttökustjóri

Greta Sverrisdóttir

Greta Sverrisdóttir, móttökustjóri HSU á Selfossi.

Viðmælandi tíðindafólks Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að þessu sinni er Greta Sverrisdóttir, móttökustjóri HSU á Selfossi. Greta fæddist 21. apríl 1966 suður með sjó í Keflavík. Eftir hefðbundna grunnskólagöngu gekk Greta í Menntaskólann við Sund og lauk svo annars vegar BSc-gráðu í landafræði og ferðamálum og hins vegar meistaragráðu í rekstrarfræði í frístundarmálum við sitt hvorn háskólann í Bandaríkjunum.

ÞREFÖLD AMMA
Við forvitnumst um fjölskylduhagi og líf Gretu utan vinnu. „Ég á þrjú uppkomin börn og fjögur barnabörn, ásamt því að eitt er á leiðinni. Utan vinnu nýt ég samveru með fjölskyldunni og góðum vinum, les góðar bækur og ferðast og kynnist öðrum menningarheimum. Nýlegast er ógleymanlegt ferðalag um þjóðgarða Klettafjalla í Bandríkjunum þar sem við ókum um 3.000 kílómetra í heildina.”

ÞRAUTREYNDUR STJÓRNANDI
„Ég hef megnið af starfsferli mínum sinnt stjórnunarstörfum í þjónustu, þá aðallega í tengslum við yngri kynslóðina. Fyrir nokkrum árum ákvað ég síðan að breyta til og kynna mér heilbrigðiskerfið. Þar spilaði líka inn í að hætta að ferðast stöðugt til Reykjavíkur til vinnu. En ég sé ekki eftir þessari breytingu, því að hér hjá HSU ríkir afskaplega jákvæður starfsandi, stuðningur yfirmanna er mikill og verkefnin mjög fjölbreytt. Ég hef að auki lengi unnið við þýðingar í hjáverkum.”

FJÖLBREYTT STARF
Í móttöku HSU á Selfossi eru 10 starfsmenn, sem vinna vaktavinnu og skiptast á við að svara síma eða sinna afgreiðslu. Starf móttökustjóra felst mikið til í samskiptum við annað fólk, bæði við afgreiðslu og í síma ásamt samskiptum við hinar ýmsu deildir innan HSU og starfsfólk þar. „Stór hluti starfsins felst líka í ýmis konar verkefnavinnu af margvíslegu tagi. Við í móttökunni sjáum um samskipti við skjólstæðinga HSU, afgreiðslu, símsvörun og leiðbeinum fólki með hverjar þær fyrirspurnir sem það kann að hafa. Við erum einnig hinum ýmsu deildum HSU innan handar með mörg ólík verkefni.”

MIKIÐ UMFANG
Umfangið hjá móttökuteymi HSU á Selfossi er umtalsvert. „Við erum svo lánsöm að hafa mjög öflugt teymi hérna í móttökunni og gegnum okkur fer á einn eða annan hátt allt sem tengist komum til heimilislækna, hjúkrunarfræðinga, bráðamóttöku,  komur útlendinga og annars ferðafólks, myndgreiningar, rannsóknir, mæðravernd, maga- og ristilspeglanir, komur til sérfræðinga og komur í krabbameinslyfjagjöf, lyfjagjafir, mæðravernd og ungbarnavernd. Sumt meira en annað."

TUGÞÚSUNDIR AF KOMUM
Ef litið er til fyrrnefnds umfangs í ársskýrslu HSU fyrir árið 2023, þá voru þar 52.262 komur til heimilislækna í umdæminu, 20.941 komur á bráðamóttöku HSU á Selfossi, 32.975 komur til hjúkrunarfræðinga, 8.704 komur og meðferðir í endurhæfingu, á 3.398 komur í mæðravernd, 1.1011 komur í krabbameinslyfjagjafir, 1.110 í aðrar lyfjagjafir, 3.206 viðtöl við geðheilsuteymi, 1.478 viðtöl við sálfræðinga, 831 komur í blóðskilun og 6.585 komur til sérfræðinga á göngudeild. Áætlað er að dagleg símtöl til móttöku HSU á Selfossi séu 200-300 talsins. Sjá meðfylgjandi svipmyndir úr ársskýrslunni.

Herdís Ýr Ásgeirsdóttir, Þórunn Gunnarsdóttir, Greta Sverrisdóttir og Valgerður Knútsdóttir.

Hluti af móttökuteymi HSU á Selfossi. Frá vinstri til hægri eru Herdís Ýr Ásgeirsdóttir, Þórunn Gunnarsdóttir, Greta Sverrisdóttir og Valgerður Knútsdóttir.

ársskýrsla 2023 - 01
ársskýrsla 2023 - 02

Texti: Stefán Hrafn Hagalín
Myndir: Valgarður Gíslason