19. maí 2025
19. maí 2025
Nýtt tölvusneiðmyndatæki - Kærkomin uppfærsla sem skiptir sköpum í þjónustu við sjúklinga
Frétt
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur tryggt Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) fjárveitingu upp á rúmlega 140 milljónir króna til kaupa á nýju tölvusneiðmyndatæki. Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, segir að nýja tækið muni hafa veruleg áhrif á þjónustu við sjúklinga, sérstaklega í tengslum við greiningu og meðferð bráðatilfella.
Með þessari fjárveitingu getur HSU tekið þátt í útboði sem stendur nú yfir, og vonir standa til að hægt verði að ganga frá kaupum og setja tækið upp á næstu mánuðum. Tækið kemur í stað eldri búnaðar og er um að ræða verulega tæknilega uppfærslu. Þróun tölvusneiðmyndatækni hefur verið hröð undanfarin ár og nýjustu tækin draga m.a. úr geislaálagi á sjúklinga auk þess sem þau gera kleift að framkvæma rannsóknir hraðar og með aukinni nákvæmni. „Þetta er mjög kærkomin endurnýjun á lykiltækjabúnaði sem skiptir sköpum fyrir öryggi sjúklinga, greiningu og meðferð,“ segir Díana.