14. október 2024
14. október 2024
Nýtt sneiðmyndartæki á HVE
Nýtt tölvusneiðmyndartæki (CT tæki) hefur verið tekið í notkun á myndgreiningardeild sjúkrahúss HVE á Akranesi.
Um er að ræða mun fullkomnara og fljótvirkara tæki en það gamla sem var frá árinu 2015 og komið fram yfir eðlilegan líftíma. Gamla tækið var 16 sneiða en hið nýja er 64 sneiða og myndgæðin hafa einnig aukist mikið. Þetta nýja tæki gefur m.a. möguleika á rannsóknum af smærri æðum t.d. í hálsi, heila og til nýrna sem ekki var mögulegt áður og kemur því til með að spara ferðir til rannsókna í Reykjavík.
Tölvusneiðmyndatæki er grunnbúnaður sem þarf að vera til staðar á myndgreiningardeildum sjúkrahúsa og rannsóknum fer fjölgandi. Árið 2023 fjölgaði tölvusneiðmyndum um 10,2% frá fyrra ári og voru samtals 2.323 á inniliggjandi sjúklingum og á göngudeild.
HVE fagnar þessum áfanga í bættum tækjabúnaði til rannsókna sem heilbrigðisráðuneytið gerði stofnuninni kleift að kaupa með því að veita fjárframlagi fyrir megninu af kaupverði tækisins.