Fara beint í efnið

24. maí 2023

Nýtt skipurit tekur gildi 1. september 2023

Síðastliðna mánuði hefur verið unnið að greiningu á núverandi stjórnskipulagi Sjúkrahússins á Akureyri í samráði við framkvæmdastjórn, fagráð, stjórnendur og starfsfólk. Ráðgjöf var fengin frá KPMG á Íslandi. Í greiningarvinnunni var horft bæði til rekstar og þjónustu sjúkrahússins og fól niðurstaðan m.a. í sér breytingar á skipuritinu sem miða að því að búa sjúkrahúsið betur undir þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðiskerfinu.

Skipurit

Síðastliðna mánuði hefur verið unnið að greiningu á núverandi stjórnskipulagi Sjúkrahússins á Akureyri í samráði við framkvæmdastjórn, fagráð, stjórnendur og starfsfólk. Ráðgjöf var fengin frá KPMG á Íslandi. Í greiningarvinnunni var horft bæði til rekstar og þjónustu sjúkrahússins og fól niðurstaðan m.a. í sér breytingar á skipuritinu sem miða að því að búa sjúkrahúsið betur undir þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðiskerfinu. Skipuritið hefur einnig verið kynnt heilbrigðisráðherra eins og skylt er lögum samkvæmt.

Megin áherslan í nýju stjórnskipulagi er sú að Sjúkrahúsið á Akureyri starfi sem ein heild í þágu sjúklinga með auknum stuðningi við klíníska þjónustu. Þrjú klínísk svið verða lögð niður og eitt sameinað svið klínískrar þjónustu verður til sem stuðlar að auknu samstarfi og samhæfingu allrar klínískrar þjónustu (göngu-, dag- og legudeilda).

Framkvæmdastjóri lækninga og framkvæmdastjóri hjúkrunar fá skýrara hlutverk og ábyrgð á sviði faglegrar framþróunar og vinna markvisst að vísindum, faglegri forystu og þróun, samhæfingu þjónustu sérgreina á sviði klínískrar þjónustu auk samhæfingar á sviði rekstrar og klínískrar stoðþjónustu. Einnig verður þeim falið að hafa umsjón með gæðum og öryggi, menntun heilbrigðisstarfsmanna sem og bættu flæði sjúklinga. Þeir munu vinna náið saman með framkvæmdastjóra klínískrar þjónustu, að aukinni samvinnu milli deilda, bættu upplýsingaflæði og samræmingu verkferla með það að markmiði að veita góða og skilvirka þjónustu.

Skortur á sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki er áskorun sem við á Sjúkrahúsinu á Akureyri stöndum frammi fyrir og viljum nálgast af festu. Lögð verður áhersla á mannauðsmál og að mönnun sé í samræmi við starfsemi. Með því að efla klíníska stoðþjónustu vonumst við til þess að sérhæft heilbrigðisstarfsfólk geti einbeitt sér að störfum sem byggja á sérhæfingu þeirra og þannig verði hægt að létta á álagi og efla starfsánægju.

Mikilvægt er að nýta betur gögn og tækni til að auka skilvirkni og árangur í starfseminni og því þarf að tryggja betri rauntíma upplýsingar um fjármál, rekstur og flæði til þess að geta tekið betri og upplýstari ákvarðanir. Með það í huga var lögð fram veruleg breyting á núverandi sviði fjármála og rekstrar og verður því breytt í svið rekstrar og klínískrar stoðþjónustu og fjármálin tekin út og höfð sem séreining. Í stað fjármála koma aðrar starfseiningar þ.e. heilbrigðisgagnafræðingar, lyfjaþjónusta, rannsóknaþjónusta og myndgreiningar. Einnig verður umsýsla með byggingu nýrrar legudeildarbyggingar á ábyrgð sviðsins.

Fjármálin eru sem fyrr mikilvægur þáttur í rekstri opinberra heilbrigðisstofnana og mikilvægt að lykilstjórnendur fái góða heildarsýn yfir rekstur, starfsemi og mannauð. Áhersla verður því sett á að efla fjármál og greiningar gagna sérstaklega auk þess sem þeirri einingu er ætlað að fylgja eftir innleiðingu á þjónustutengdri fjármögnun (DRG).

Í ljósi ofangreindra áherslubreytinga verður til nýtt starf fjármálastjóra sem heyrir beint undir forstjóra. Áfram verða fimm framkvæmdastjórar í framkvæmdastjórn. Ný og breytt störf framkvæmdastjóra klínískrar þjónustu, framkvæmdastjóra rekstrar og klínískrar stoðþjónustu og fjármálastjóra verða auglýst til umsóknar á næstunni.

Ég hef mikla trú á því að með nýju skipuriti þá náum við að samtvinna starfsemi sjúkrahússins betur við nýlega stefnu og framtíðarsýn Sjúkrahússins á Akureyri með það að markmiði að vinna saman sem ein heild í að styrkja klíníska kjarnastarfsemi í þágu sjúklinga.

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri