Fara beint í efnið

1. september 2023

Nýtt skipurit SAk tekur gildi

Aukinn stuðningur við mannauðinn til að efla og þróa klíníska starfsemi í takt við þarfir samfélagsins

Ný framkvæmdastjórn 2023

Þann 1. september tekur gildi nýtt skipurit SAk. Helstu áherslubreytingar snúa að auknum stuðningi við klíníska þjónustu en með sameiningu þriggja klínískra sviða er stuðlað að auknu samstarfi og samhæfingu allrar klínískrar þjónustu (göngu- , dag- og legudeilda).

Framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri lækninga fá skýrara hlutverk og aukna ábyrgð sem leiðtogar faglegrar framþróunar á sjúkrahúsinu. Þeirra verkefni verður að leiða svið faglegrar framþróunar og samhæfa hlutverk og þjónustu sérgreina og sérsviða sjúkrahússins í samvinnu við starfsfólk og framkvæmdastjórn.

„Við lögðum mikla og vandaða vinnu í greiningu á stjórnsýsluskipulagi sjúkrahússins í samráði við framkvæmdastjórn, fagráð, stjórnendur og starfsfólk auk þess að hafa KPMG með okkur í þessu verkefni. Þessi vinna skilaði því að allir faghópar vildu sjá betra samráð endurspeglað í nýju skipuriti,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk.

Brugðist við áskorunum varðandi mönnunarvanda

Líkt og hvarvetna í heiminum eru miklar áskoranir vegna mönnunarvanda í heilbrigðisgeiranum – sérstaklega eftir erfið ár í heimsfaraldri. Sjúkrahúsið á Akureyri vill huga vel að sínu starfsfólki og leggur í nýju skipuriti meiri áherslu á mannauðsmál þar sem nýtt mannauðssvið verður til. Hlutverk sviðsins er fyrst og fremst að styðja við framkvæmdastjóra, stjórnendur og annað starfsfólk í mannauðsmálum en einnig að styðja við heilsueflingu starfsfólks. Skrifstofa forstjóra og starfsmannaþjónusta verður því lögð niður en verkefni þeirra falla undir mannauðssvið.

Nýr fjármálastjóri

Fjármál eru nú sem fyrr mikilvægur þáttur í starfsemi sjúkrahússins og verður aukin áhersla á fjármál og greiningar. Guðbjartur Ellert Jónsson var ráðinn í starfið sem fellur beint undir forstjóra. Fjármálastjóri mun leiða starfsemi á skrifstofu fjármála og greininga. Þeirri einingu er ætlað að styðja við stjórnendur með því að veita bæði aðhald og miðla upplýsingum um rekstur og starfsemi og þannig gera stjórnendum betur kleift að taka góðar og rökstuddar ákvarðanir.

Framkvæmdastjórn

Með nýju skipuriti samanstendur framkvæmdastjórn nú af eftirfarandi:

  • Forstjóri: Hildigunnur Svavarsdóttir

  • Framkvæmdastjóri hjúkrunar: Hulda Ringsted

  • Framkvæmdastjóri klínískrar þjónustu: Helgi Þór Leifsson

  • Framkvæmdastjóri lækninga: Ragnheiður Halldórsdóttir

  • Framkvæmdastjóri mannauðssviðs: Erla Björnsdóttir

  • Framkvæmdastjóri rekstar og klínískrar stoðþjónustu: Konráð Gylfason

„Ég hef mikla trú á þessari breytingu og held að með því að sameina klínísku sviðin þá gefst okkur betra tækifæri til þess að horfa á þjónustuna sem heild sjúklingum og starfsfólki í hag. Þannig skapast einnig tækifæri til þróunar á klínískri starfsemi burtséð frá einingum. Með tíð og tíma sjáum við fram á mikla hagkvæmni með aukinni yfirsýn og endurskoðaðri starfsemi,“ segir Hildigunnur að lokum.

Skipurit 2023