28. nóvember 2025
28. nóvember 2025
Nýtt löndunarkerfi tekið í notkun, GAFL kveður eftir 18 ár
Frá og með 1. desember mun nýtt löndunarkerfi Fiskistofu alfarið taka við aflaskráningu á höfnum landsins.

Hornsteinn fiskveiðistjórnunar kveður
Frá árinu 2007 hefur aflaskráningarkerfið GAFL gegnt lykilhlutverki í skráningu afla á höfnum landsins. Á þessum 18 árum hafa tæplega milljón landanir verið skráðar í GAFL, eða nákvæmlega 926.210 landanir.
Það er því óhætt að segja að GAFL hafi verið hornsteinninn í fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga og skipt sköpum í réttri aflaskráningu og sjálfbærri nýtingu fiskistofna.
Einfaldara, aðgengilegra og gagnsærra
Tímarnir breytast og kröfurnar aukast. Fiskistofa hefur því lokið við hönnun og forritun á nýju löndunarkerfi sem mun alfarið taka við af GAFL frá og með 1. desember 2025.
Nýja kerfið var hannað í nánu samstarfi við notendur (starfsmenn hafna) og var reynt að koma til móts við óskir þeirra, athugasemdir og ábendingar.
Meginmarkmið nýja kerfisins eru:
Að vera aðgengilegra og einfaldara í notkun.
Að styðja enn betur við rétta aflaskráningu.
Að auka gagnsæi í ferlum.
Innleiðingu lýkur 1. desember
Þann 1. desember verður innleiðingu nýs löndunarkerfis hjá öllum höfnum landsins lokið og um leið verður slökkt á GAFL kerfinu.
Fiskistofa þakkar Hafnarsambandi Íslands og hafnarstarfsmönnum fyrir gott og ánægjulegt samstarf við hönnun og prófun nýja löndunarkerfisins.