Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

28. maí 2025

Nýtt hjúkrunarheimili í Norðurþingi í sjónmáli – samningur undirritaður

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, undirrituðu föstudaginn 23. maí formlega samning sem markar stórt skref í átt að byggingu nýs hjúkrunarheimilis í sveitarfélaginu.

Heimilið, sem verður með um 60 rýmum, mun bæta verulega þjónustu við aldraða íbúa svæðisins og aðbúnað starfsfólks.

Samkvæmt samningnum útvegar Norðurþing ríkinu lóðina en á næstunni verður auglýst eftir aðila til að byggja hjúkrunarheimilið. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í desember á þessu ári eða í janúar 2026 og standi til lok árs 2027. Ríkið mun síðan leigja húsið með leigusamningi til 20-30 ára.

Viðburðurinn fór fram við hátíðlega athöfn þar sem fjölmargir gestir mættu, þar á meðal íbúar núverandi hjúkrunarheimilis, Hvamms, og starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN). Stemningin góð enda tilefnið fagnaðarefni fyrir samfélagið allt.

Skemmtilegt tónlistaratriði setti svip sinn á dagskrána, þar sem Heilsutríóið steig á svið og flutti ljúfa tóna. Tríóið samanstendur af núverandi og fyrrverandi starfsfólki HSN á Húsavík og vakti mikla lukku meðal viðstaddra.