3. september 2020
3. september 2020
Nýr vefur í loftið
Stór áfangi lítur nú dagsins ljós þegar nýr vefur Ísland.is fer í loftið. Uppfærslur hafa verið gerðar bæði á bakenda til að styrkja tengingar við stofnanir en stóra breytingin snýr að notendum og notendaupplifun.
Helstu nýjungar á vefnum felast í svokölluðum lífsviðburðum og þjónustuflokkum.
Í lífsviðburðunum er leitast við að taka saman helstu þjónustu sem fólk þarf á tilteknum tímamótum í lífinu, til að mynda að eignast barn, fara í nám, að stofna fyrirtæki og undirbúa starfslok og efri árin.
Eins og nafnið gefur til kynna taka þjónustuflokkar saman helstu þjónustu til að auðvelda notendum leitina.
Helstu áherslur nýs Ísland.is eru aðgengi fyrir alla, notendamiðuð nálgun, rafgræn framtíð, opinn og frjáls hugbúnaður ásamt öryggi og persónuvernd. Markmiðið er að vefurinn sé fyrir alla, hafi jákvæð áhrif á umhverfið, tryggi öryggi gagna og einfaldi líf þeirra sem búa og starfa á Íslandi.
En það gerist ekki á einni nóttu og munu næstu vikur og mánuðir fara í að tengja stofnanir og þeirra þjónustu inn á Ísland.is.