21. maí 2024
21. maí 2024
Nýr tengigangur tilbúinn fyrir ársfund
Nýr fjölnota fundarsalur, vinnuaðstaða og endurbætt aðstaða hermiseturs.
Verið er að leggja lokahönd á vinnu við nýjan tengigang sem tengir saman A, C og D byggingu Sjúkrahússins á Akureyri. Vinnan hófst 2022 og byggingarfulltrúi hefur tekið bygginguna út.
Á tengiganginum verður staðsett nýtt og endurbætt hermisetur, einnig nýr glæsilegur fundarsalur ásamt vinnuaðstöðu og minni fundarrýmum. Þá verður leiðin frá fæðingardeild að skurðstofum og barnadeild mun þægilegri og öryggi vegna bráðakeisara verður mun meira.
„Við lögðum allt í að hafa tengiganginn til fyrir ársfundinn sem fram fer föstudaginn 24. maí. Hér er búið að setja upp nútíma tæknibúnað í fundarherbergin og einnig hefur mikil og vönduð vinna farið í að setja upp nýtt og endurbætt hermisetur,“ segir Konráð Gylfason framkvæmdastjóri rekstrar og klínískrar stoðþjónustu.
Ný húsnýtingarnefnd er á fullu við að ákveða hvaða einingar flytjast í vinnurýmin á nýja ganginum fyrir utan starfsfólk mennta- og vísindadeildar. „Það fer stór snjóbolti af stað um leið og við færum fólk til og við viljum vanda til verks með tilliti til þeirra framkvæmda sem næstar eru á dagskrá hér innanhúss,“ segir Konráð sem einnig á sæti í húsnýtingarnefndinni.
„Við hlökkum til að taka á móti fólki hingað á ársfundinn sem fram fer föstudaginn 24. maí kl. 14. Þá getur fólk skoðað aðstæður en þá munum við einnig skrifa undir samning um hönnun nýbyggingar. Það er því bjart framundan hjá SAk,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk.