Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

3. september 2025

Nýr rammasamningur um ökutækjatryggingar

Samningurinn sparar ríkinu 200 milljónir á samningstíma

Fjársýslan hefur gert nýjan rammasamning um lögboðnar ábyrgðartryggingar ökutækja í ríkiseigu eftir útboð nr. 23169. Hagkvæmasta tilboði frá Sjóvá var tekið og samningur undirritaður 26. ágúst 2025.

Árleg iðgjöld ríkisins lækka úr 146 milljónum í 96 milljónir króna – sparnaður sem nemur 50 milljónum króna á ári og allt að 200 milljónum yfir fjögurra ára samningstíma. Sé miðað við að enginn rammasamningur væri til staðar er sparnaðurinn metinn allt að 416 milljónum króna.

Af 69 ríkisstofnunum með ökutæki munu 63 sjá lækkun á iðgjöldum sínum. Vegagerðin lækkar mest í krónum talið, eða um 12,23 milljónir á ári. Einungis sex stofnanir sjá hækkun, þar af er mesta hækkun aðeins 460 þúsund krónur á ári.

Með nýrri aðferðarfræði tókst að draga úr áhættu fyrir tryggingafélögin, stuðla að sanngjarnari dreifingu iðgjalda og skapa hvata fyrir stofnanir til að draga úr tjónum. Þetta þýðir verulega betri kjör fyrir ríkið.

Samningurinn gildir í tvö ár með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum um eitt ár í senn.