9. apríl 2025
9. apríl 2025
Nýr örorkulífeyrir frá 1. september birtur í greiðsluáætlunum
Nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi 1. september 2025. Hluti af innleiðingu nýja kerfisins eru útreikningar greiðslna fyrir þá einstaklinga sem eru með gilt örorkumat 31. ágúst 2025 og birtast í nýrri greiðsluáætlun fyrir árið 2025. Búið er að birta nýjar greiðsluáætlanir fyrir um 19.000 einstaklinga á Mínum síðum TR. Langflest í hópnum fá hærri greiðslur.

Varanlegur réttur til örorkulífeyris
TR hefur upplýst umrædda viðskiptavini um nýja greiðsluáætlun og að þau fái varanlegan rétt til örorkulífeyris í nýju kerfi. Það þýðir að viðskiptavinir þurfa ekki lengur að afla sér reglulega vottorða og sækja um endurnýjun á örorkumati sem mun létta töluvert álagi af bæði viðskipavinum TR og heilbrigðiskerfinu.
Nýr örorkulífeyrir
Nýja kerfið er einfaldara með færri greiðsluflokkum en eru í núverandi kerfi. Frá 1. september leggjast greiðsluflokkarnir örorkulífeyrir, aldursviðbót og heimilisuppbót saman, ef við á, og svo eru dregin 45% af tekjum umfram frítekjumörk af þeirri fjárhæð. Því er aðeins birt ein samtala í greiðsluáætlun.
Stór áfangi
Birting nýrra greiðsluflokka í greiðsluáætlunum er stór áfangi í innleiðingu á nýju kerfi í haust, því nú geta viðskiptavinir séð upphæðir greiðslna frá og með 1. september.
TR mun á næstu vikum vinna að því að flytja alla einstaklinga sem eru með örorkumat í gildi 31. ágúst 2025 og lengur í nýja kerfið og birta þeim nýja greiðsluáætlun en það verkefni verður unnið í nokkrum skrefum. Stefnt er að því að klára það verkefni í síðasta lagi 15. maí nk.
Hér má finna spurningar og svör vegna nýrra greiðsluáætlana.