13. desember 2024
13. desember 2024
Nýr hitakassi á barnadeild SAk
Hollvinir komu færandi hendi.
Barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) hefur fengið nýjan og fullkominn hitakassa af gerðinni Babyleo frá Dräger. Kassinn leysir af hólmi eldri gerð sem komin var til ára sinna og ekki lengur hægt að fá varahluti í.
Nýi hitakassinn er bæði notendavænn og auðveldur í umgengni og mun nýtast afar vel á hágæslu nýbura á barnadeildinni. Á deildina leggjast inn veikir nýburar og fyrirburar sem fæddir eru eftir 34 vikna meðgöngu og eru hitakassar lykilbúnaður í meðferð þeirra.
Á ári hverju leggjast um 40-60 börn inn á hágæslu nýbura og þurfa þau nánast alltaf að fá fyrstu meðferð í hitakassa. Oftast er um að ræða innlögn strax eftir fæðingu eða á fyrstu dögum eftir hana.
Gjafmildi Hollvina hefur því tryggt barnadeildinni þennan nýja og mikilvæga búnað sem mun bæta aðbúnað nýburanna og stuðla að betri umönnun þeirra.
„Það er ekki amalegt að fá slíkar gjafir frá Hollvinum og við erum mjög þakklát,“ segir Aðalheiður Guðmundsdóttir, deildarstjóri barnadeildar.
MYND: Jóhannes G. Bjarnason, formaður Hollvina, Hermann Haraldsson, gjaldkeri Hollvina, Jóhann Rúnar Sigurðsson, varaformaður Hollvina, Aðalheiður Guðmundsdóttir, deildarstjóri barnadeildar, Gróa Björk Jóhannesdóttir, yfirlæknir barnalækninga, Elma Rún Ingvarsdóttir, sérfræðingur í barnahjúkrun, Helgi Þór Leifsson, framkvæmdastjóri klínískrar þjónustu og Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga.