17. október 2022
17. október 2022
Nýr forstöðumaður upplýsingatæknideildar HSN
Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur ráðið Árna Kár Torfason í starf forstöðumanns upplýsingatæknimála.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur ráðið Árna Kár Torfason í starf forstöðumanns upplýsingatæknimála.
Árni er með B.Sc. í rekstrarfræði af tölvu- og upplýsingatæknibraut, diploma í opinberri stjórnsýslu og er í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu.
Árni hefur starfað í tíu ár sem forstöðumaður upplýsingatæknideildar hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri en starfið fólst í stjórnun og rekstri upplýsingatæknideildar SAk sem er 10 manna deild, rekstri tölvukerfa sjúkrahússins og sjúkraskrárkerfa fyrir heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi. Jafnframt hefur hann haft umsjón með stefnumótun, þróun og verkefnum á sviði tækni- og upplýsingamála og hefur mikla reynslu af rekstri og stjórnun úr fyrri störfum.
Hann hefur brennandi áhuga á upplýsingatækni og þekkir umhverfi heilbrigðis- og velferðartækni vel úr störfum sínum. Hann hefur haft forgöngu í ýmsum verkefnum á þessu sviði, meðal annars á rafrænni umsýslu lyfja. Einnig hefur hann komið að innleiðingu á ýmsum kerfum og stafrænum lausnum og fylgist vel með síbreytilegu umhverfi upplýsingatækni. Árni átti frumkvæði að því að bjóða þjónustu upplýsingatæknideildar SAk fyrir rekstur sameiginlegs skýjakerfis fyrir allar heilbrigðisstofnanir utan Landspítala. Hann hefur byggt upp upplýsingatæknideild SAk jafnt og þétt og stórbætt þjónustustigið.
Árni mun hefja störf 7. nóvember næstkomandi.
Við óskum Árna til hamingju með stöðuna og bjóðum hann velkominn til starfa.