Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

5. mars 2025

Ný skýrsla um verðmætasköpun úr íslenskum skógum

Ýmsar vörur eru álitlegar til framleiðslu úr íslensku timbri. Spurn eftir timbri í heiminum fer vaxandi og nýtanlegt viðarmagn úr íslenskum skógum eykst mjög á komandi árum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem unnin var að frumkvæði Félags skógarbænda á Suðurlandi. Skýrslan er er afrakstur forvals á hugmyndum um nýtingu verðmæta úr íslenskum skógum.

Helstu nytjaskogasvaedi landsins

Verkefnið kallast Úr skógi - skógarafurðir á Íslandi og nýverið kom út samnefnd skýrsla þar sem tíundaðar eru niðurstöður úr vinnu samráðshóps sérfræðinga af ýmsum sviðum, þar á meðal skógrækt, hönnun, iðnaði og fræðasamfélaginu. Hlutverk hópsins var að meta mismunandi hugmyndir um nýtingu skógarafurða. Frumkvæði að verkefninu hafði Félag skógarbænda á Suðurlandi en verkfræðistofan EFLA var fengin til að safna saman hugmyndum og vinna gróft forval á þeim í samvinnu við hópinn. Annars vegar voru hugmyndirnar metnar út frá því hversu raunhæfar þær væru og hins vegar út frá markaði og aðstæðum.

Áætlað er að frá og með árinu 2030 verði hægt að nýta árlega yfir 50 þúsund rúmmetra af bolviði úr nytjaskógum landsins. Þá hefur spurn eftir timbri og timburvörum aukist verulega í heiminum að undanförnu, ekki síst vegna þess hversu visthæft efni viðurinn er í samanburði við önnur hráefni á borð við steinsteypu, járn og plast. Hvort tveggja gefur aukið tilefni til að betur verði farið að huga að verðmætasköpun úr íslenskum skógum.

Ýmsar álitlegar afurðir

Í forvali hugmynda kom í ljós að ýmsar afurðir reyndust álitlegar til framleiðslu úr íslensku timbri svo sem garðhýsi, gufuböð, jólatré, krosslímdar einingar, límtré, flettir trjábolir og millikubbar í vörubretti. Eftirspurn hefur farið vaxandi, bæði í byggingariðnaði og á almennum markaði. Dæmi um það eru viðarperlur og viðarkurl sem orkugjafi og til annarra nota, lífkolavinnsla, eldiviður og jafnvel sértækar vörur eins og hitameðhöndlað timbur og gegnsætt efni unnið úr timbri. Meðal fýsilegra möguleika er líka nefnt timburfrauð sem gæti komið í stað plastumbúða undir ferskan fisk. Meðal álitlegra kosta eru líka óefnislegir möguleikar eins og upplifun í skógi. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að ýmsar þær vörur sem ekki röðuðust ofarlega í forvalinu geti engu að síður verið fýsilegur kostur fyrir einyrkja eða smáframleiðslu.

Framhaldið

Áhugi er á því að halda verkefninu áfram og gera ítarlega greiningu á núverandi skógum og innviðum. Einnig þarf að vinna markaðsgreiningu á eftirspurn og samkeppnisstöðu viðarafurða ásamt því að setja fram mögulegar sviðsmyndir til að hámarka megi nýtingu auðlindarinnar. Meta þarf hugmyndir um miðlægt vinnslu- og sölukerfi fyrir viðarafurðir og Félag skógarbænda á Suðurlandi vill einnig gera frekari greiningu á innviðum í landshlutanum, markaðstækifærum, samfélagsþáttum og umhverfisáhrifum. Leitað verður stuðnings til að hægt verði að ráðast í þessa vinnu.

Um gerð skýrslunnar

Verkefnisstjóri við þá vinnu sem skýrslan er afrakstur af var Björn Bjarndal fyrir hönd Félags skógarbænda á Suðurlandi en Silja Björk Axelsdóttir og Alexandra Kjeld hjá Eflu stýrðu gerð skýrslunnar. Verkefnið naut styrks úr Sóknaráætlun Suðurlands og auk framangreindra lögðu Land og skógur, Listaháskóli Íslands og Félag vöru- og iðnhönnuða sitt til verkefnisins. Fulltrúar Lands og skógar voru þau Gústaf Jarl Viðarsson skógræktarráðgjafi og Hrefna Jóhannesdóttir, sviðstjóri ræktunar og nytja.