2. október 2025
2. október 2025
Ný skjalaskrá Þjóðskjalasafns á vefinn
Skjalaskráin er þungamiðjan í starfsemi skjalasafns en þar er haldið utan um allar upplýsingar um safnkostinn sem varðveittur er, skjalaskrár, útlán og fleira. Undanfarin misseri hefur verið unnið að innleiðingu á nýju skjalaskrárkerfi á Þjóðskjalasafni. Nú er komið að opnun á nýjum skjalaskrárvef sem mun leysa af hólmi eldri vef.

Fyrsti áfanginn á þessari vegferð varð um síðustu áramót þegar öll gögn skjalaskrárinnar voru flutt í nýja skjalaskrárkerfið og það var tekið í notkun innan safnsins. Síðan þá hafa allar nýjar afhendingar og skjalaskrár verið skráðar í kerfið.
Næsta stóra skrefið er stigið nú með innleiðingu á nýja skjalaskrárvefnum sem býður upp á öflugri leitarmöguleika en áður, auk þess sem hægt verður að fletta í gegnum allar skjalaskrár. Þá verður einnig hægt að stofna notendaaðgang þar sem hægt verður að panta skjöl á lestrarsal eða safna færslum úr skjalaskrám í vinnubækur fyrir frekari skoðun síðar. Áfram verður þó hægt að panta skjöl á gamla mátann með því senda tölvupóst á upplysingar@skjalasafn.is eða mæta á lestrarsalinn.
Nýi vefurinn var opnaður 2. október og má finna hann á slóðinni https://skjalaskrar.skjalasafn.is. Kynningarmyndbönd um notkun nýja vefsins má sjá hér.
Á nýja vefnum eru skrár fyrir meira en 3900 skjalasöfn sem samanstanda af hundruðum þúsunda skjalaaskja og meira en milljón örkum.

Gamli skjalaskrárvefurinn verður þó aðgengilegur enn um sinn á slóðinni https://eldriskrar.skjalasafn.is.
