10. mars 2022
10. mars 2022
Ný rannsókn á mataræði landsmanna
Niðurstöður landskönnunar á mataræði landsmanna 2019-2021 voru birtar í dag.
Niðurstöður landskönnunar á mataræði landsmanna 2019-2021 voru birtar í dag. Mataræði landsmanna hefur tekið breytingum frá síðustu landskönnun 2010-2011. Það hefur bæði þokast í átt að ráðleggingum um mataræði og fjær þeim, allt eftir því hvaða fæðuflokkar og næringarefni eru skoðuð. Mikill breytileiki er í mataræði á milli kynja og aldurshópa.
Ýmsar jákvæðar breytingar en annað má bæta
Jákvæðar breytingar sjást í nýjum niðurstöðum á mataræði landsmanna, þar sem neysla á viðbættum sykri, meðal annars úr sykruðum gosdrykkjum, hefur minnkað og einnig hefur neysla á rauðu kjöti minnkað um 10%. Hins vegar má líka sjá neikvæða þróun þar sem neysla á ávöxtum hefur minnkað síðan 2010–2011 og neysla á grænmeti stendur í stað. Einungis 2% þátttakenda náðu að borða 500 grömm af grænmeti og ávöxtum daglega eins og ráðlagt er. Það er mikilvægt að borða meira af heilum ávöxtum og grænmeti og öðrum afurðum úr jurtaríkinu til að tryggja að við fáum nóg af til dæmis trefjum og vítamínum. Joðneysla hefur minnkað um 20% að meðaltali frá síðustu landskönnun og þá sérstaklega hjá yngsta aldurshópi kvenna sem kemur aðallega til vegna minni mjólkurneyslu og lítillar fiskneyslu í þeim hópi. Niðurstöðurnar benda einnig til að vert sé að beina athyglinni sérstaklega að yngstu aldurshópum karla og kvenna (18-39 ára) sem virðast síður fá mikilvæg næringarefni í nægjanlegu magni miðað við eldri landsmenn.
Embætti landlæknis ráðleggur öllum landsmönnum að taka D–vítamín sem bætiefni og einnig konum á barneignaaldri að taka fólat sem bætiefni. Um 55% landsmanna taka D–vítamín reglulega og 12% kvenna á barneignaaldri taka fólat.
Að könnuninni stóðu Embætti landlæknis og Rannsóknastofa í næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og náði hún til fólks á aldrinum 18–80 ára. Hliðstæð rannsókn fór síðast fram árið 2010–2011.
Upptaka frá kynningarfundinum
Stutt samantekt á helstu niðurstöðum könnunarinnar
Samanlögð neysla á grænmeti og ávöxtum er að meðaltali um 213 grömm á dag, en mælt er með því að borða að minnsta kosti 500 grömm á dag. Einungis um 2% þátttakenda nær því marki, sem er lægra hlutfall en í síðustu könnun.
Rúmlega fjórðungur þátttakenda nær viðmiðum um neyslu á heilkornavörum (70 grömm á dag) á þeim tveimur dögum sem upprifjun á mataræði fór fram.
Grænmetisréttur sem aðalréttur er á borðum hjá fjórðungi þátttakenda einu sinni í viku eða oftar og svipaður fjöldi (23%) borðaði hnetur og/eða fræ á þeim dögum sem sólarhringsupprifjun fór fram. Sé miðað við ráðleggingar mættu fleiri neyta þessara matvæla.
Fiskneysla stendur í stað milli kannana, er að meðaltali 315 grömm á viku og er eins og áður minnst í yngsta aldurshópnum (18–39 ára). Fiskneysla er sérstaklega lítil meðal yngsta aldurshóps kvenna, en einungis 1% þátttakenda í þessum hópi nær að fylgja ráðleggingum um 2–3 fiskmáltíðir á viku (375 grömm á viku).
Dregið hefur úr neyslu á rauðu kjöti um rúm 60 grömm á viku að meðaltali, eða 10%. Um 60% þátttakenda fara yfir viðmið um hámarksneyslu á rauðu kjöti, sem er 500 grömm á viku.
Mjólkurneysla hefur minnkað frá síðustu könnun en ostneysla aukist. Breyting hefur orðið á hvaða tegundir drykkjarmjólkur eru notaðar, þar sem neysla á nýmjólk hefur aukist frá síðustu könnun meðan neysla á fituminni mjólkurvörum hefur dregist saman.
Neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum hefur minnkað um 40% frá síðustu könnun en neysla á sykurlausum gos- og svaladrykkjum jókst um fjórðung. Neysla orkudrykkja hefur aukist frá síðustu könnun.
Heildarorka er óbreytt frá síðustu könnun og er að meðaltali 2044 kílókaloríur á dag. Um 16% heildarorkunnar koma úr sykruðum gos- og svaladrykkjum, sælgæti, kökum og kexi.
Próteinneysla er rífleg, eða um 18% af heildarorku að meðaltali og hefur ekki breyst frá síðustu könnun. Ráðlagt er að prótein gefi á bilinu 10–20% af heildarorku.
Hlutfall fitu af heildarorku hefur aukist að meðaltali frá síðustu könnun, úr 36% í 41%. Það sama á við um hlutfall mettaðrar fitu, sem er nú 16% heildarorkunnar miðað við 14% áður, en ætti að jafnaði ekki að fara yfir 10% heildarorkunnar.
Dregið hefur úr hlutfalli heildarorku úr kolvetnum frá síðustu könnun, úr 42% í 37% að meðaltali. Ráðlagt er að kolvetni gefi á bilinu 45–60% af heildarorku.
Dregið hefur úr neyslu á trefjaefnum frá síðustu könnun um 6% og er hún nú tæplega 16 grömm á dag að meðaltali. Ráðlagt er að fá að minnsta kosti 25 grömm af trefjaefnum daglega úr heilkornavörum, ávöxtum og grænmeti en einnig baunum og linsum, hnetum og fræjum.
Hlutfall orku úr viðbættum sykri hefur minnkað, fer úr 9% í 7% að meðaltali. Mest er hún enn í yngsta aldurshópnum og fær þriðjungur í þeim hópi yfir 10% orkunnar úr viðbættum sykri. Ráðlagt er að viðbættur sykur gefi minna en 10% af heildarorkunni.
Neysla flestra vítamína og steinefna er að meðaltali yfir ráðlögðum dagskammti. Undantekning á því er neysla á D-vítamíni, B-vítamíninu fólati og joði.
D-vítamínneysla þeirra sem ekki taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa er langt undir ráðlögðum dagskammti (15–20 míkrógrömm á dag) eða 5 míkrógrömm að meðaltali. Rúmlega helmingur þátttakenda (55%) segist taka D-vítamín sem fæðubótarefni reglulega (lýsi, perlur eða töflur) eins og ráðlagt er. Yngsti aldurshópur karla og kvenna fær minnst af D-vítamíni. D-vítamín er mest í feitum fiski og er m.a. nauðsynlegt til að örva upptöku kalks úr fæðunni.
Meðalneysla á fólati úr fæðu er undir ráðleggingum, sérstaklega meðal kvenna. Fólat er mikilvægt næringarefni á meðgöngu og skortur getur aukið líkur á alvarlegum skaða í miðtaugakerfi fósturs. Fólat er helst að finna í grænmeti, hnetum, baunum og sumum tegundum ávaxta. Einungis 12% kvenna á barneignaraldri taka inn fæðubótarefni sem inniheldur fólat, en öllum konum á barneignaraldri er ráðlagt að taka fólat sem fæðubótarefni.
Meðalneysla á C-vítamíni hefur minnkað um 23% frá síðustu landskönnun. Um helmingur þátttakenda nær ekki ráðlögðum dagskammti af C-vítamíni úr fæðu, sem stafar aðallega af því að dregið hefur úr neyslu á ávöxtum og berjum. C-vítamín er mikilvægt til að mynda bandvef (kollagen) í líkamanum og ýmis hormón og boðefni fyrir heila og taugakerfið.
Járnneysla minnkar frá síðustu landskönnun og engin kona á barneignaraldri nær ráðlögðum dagskammti fyrir járn, en hann er hærri fyrir þann hóp (15 milligrömm á dag) en aðra fullorðna (9 milligrömm á dag). Járn er helst að finna í kjöti, fiski, baunum, ertum, linsum, tófú og öðrum sojavörum, dökkgrænu grænmeti, hnetum og heilkornavörum. Járn er mikilvægt næringarefni fyrir súrefnisflutning í blóðinu, ónæmiskerfið og einnig heila- og taugaþroska barna.
Joðneysla hefur minnkað um 20% að meðaltali frá síðustu landskönnun og er minnst í yngsta aldurshópi kvenna vegna minni mjólkurneyslu og lítillar fiskneyslu í þeim aldurshópi. Tryggja þarf nægjanlegt magn af joði á meðgöngu þar sem þetta næringarefni er mikilvægt fyrir fósturþroska og þroska barnsins eftir fæðingu.
Tengt efni
Hvað borða Íslendingar?
Hvað borða Íslendingar? (Skýrslan rafræn á vef Heilbrigðisvísindastofnunar)
Glærur frá kynningunni
Nánari upplýsingar veita:
Hólmfríður Þorgeirsdóttir, holmfridur.thorgeirsdottir@landlaeknir.is
Jóhanna Eyrún Torfadóttir, johanna.e.torfadottir@landlaeknir.is
verkefnisstjórar næringar