28. febrúar 2022
28. febrúar 2022
Ný norræn skýrsla um áhættu- og verndandi þætti fyrir andlega vanlíðan meðal ungmenna
Andleg vanlíðan hefur aukist meðal ungmenna á Íslandi og öðrum Norðurlöndunum. Ný norræn skýrsla veitir innsýn í áhættuþætti sem fram hafa komið í norrænum rannsóknum, svo sem einmanaleika, mikla notkun stafrænna miðla og félagslegar aðstæður. Verndandi þættir eru m.a. hreyfing og jákvæð tengsl í skóla.
Á Norðurlöndum ríkja almennt góð uppvaxtarskilyrði fyrir börn og ungmenni. Almennt ríkir meiri velferð og jafnrétti í þessum þjóðfélögum en víða annars staðar, menntunarmöguleikar eru góðir og almennt ríkir traust til hins opinbera. Á sama tíma er of mikið af ungu fólki sem líður ekki vel.
Andleg vanlíðan hefur ekki aðeins áhrif á stöðu ungmenna í dag heldur er sú hætta fyrir hendi, ef ekki er brugðist snemma við, að vandinn geti þróast í alvarlegri geðræna erfiðleika og félagslega jaðarsetningu á unglings- og fullorðinsárum.
Til þess að öðlast betri innsýn í áhrifaþætti andlegrar vanlíðanar meðal ungmenna á Norðurlöndunum setti Stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun félagsmála í Danmörku (Socialstyrelsen) á fót samstarfsverkefni norrænna þjóða árið 2020 og tekur embætti landlæknis þátt fyrir Íslands hönd. Verkefnið beinist að því að kortleggja tiltæka þekkingu á þessu sviði þar sem farið var yfir rannsóknir á áhrifaþáttum andlegrar vanlíðanar meðal ungmenna á aldrinum 13 til 25 ára sem birst hafa síðastliðinn áratug. Afrakstur þeirrar vinnu er nýútkomin skýrsla sem dregur saman niðurstöður norrænna rannsókna á tengslum andlegrar vanlíðanar við ýmsa áhættu- og verndandi þætti í lífum ungmenna.
Stafrænir miðlar og lifnaðarhættir
Í skýrslunni kemur fram að norrænar rannsóknir hafi fundið tengsl á milli mikillar notkunar á stafrænum miðlum, eins og tölvum, símum og öðrum skjátækjum, og sállíkamlegra einkenna meðal ungmenna, tilfinningalegra erfiðleika og mikillar þreytu. Sömuleiðis eru tengsl milli óhóflegrar notkunar stafrænna miðla og svefnvenja, virkni í skóla og þunglyndiseinkenna.
Lifnaðarhættir hafa einnig áhrif en almennt hefur slæmt mataræði, áfengisneysla og hreyfingarleysi neikvæð áhrif á líðan ungmenna. Skýr jákvæð fylgni kemur fram milli hreyfingar og andlegrar heilsu þar sem umfang, styrkur og eðli hreyfingar hefur mikið að segja um áhrifin.
Skólastarf, einmanaleiki og félagsleg staða
Rannsóknir sýna að gott félagslegt umhverfi í skólum hefur jákvæð áhrif á geðheilsu ungs fólks. Gott félagslegt umhverfi felst m.a. í góðum samskiptum milli nemenda og kennara, trausti til kennara og bekkjarfélaga, að upplifa að kennarar séu styðjandi og áherslu á eineltisforvarnir.
Þegar litið er til tengsla á milli einmanaleika, erfiðrar reynslu í uppvexti og geðheilsu sýna rannsóknir hvernig tímabilið frá unglingsárum til fullorðinsára er sérstaklega viðkvæmt - ekki síst fyrir ungmenni sem glíma við sálfélagslega erfiðleika. Rannsóknirnar undirstrika sérstaklega mikilvægi þess að koma í veg fyrir einmanaleika meðal viðkvæmra hópa ungmenna.
Félagslegar aðstæður, uppruni og kyn
Rannsóknirnar sem litið er til í skýrslunni veita innsýn í mikilvægi félags- og efnahagslegra þátta hvað varðar líðan ungmenna. Norrænar rannsóknir hafa bent á tengsl milli ójöfnuðar og tilfinningalegra erfiðleika meðal ungs fólks en aðrir félagslegir áhættuþættir eru fátækt, slæm félags- og efnahagsleg staða foreldra og geðraskanir foreldra.
Þá sýna rannsóknir að þegar kemur að sjálfsmati á einkennum andlegra erfiðleika koma stúlkur og ungar konur verr út en drengir og ungir karlar. Þegar litið er til uppruna sem áhrifaþáttar virðist sem tíminn stuttu eftir komu til nýs lands sé sérstaklega viðkvæmt tímabil. Á þeim tíma skiptir sköpum að vinna að því að fyrirbyggja andlega erfiðleika meðal ungs fólks.
Opna skýrsluna A Cross-Nordic Mapping of Associative Factors to the Increase of Mental Distress Among.
Hægt er lesa meira um verkefnið á vef Socialstyrelsen í Danmörku.
Á vormánuðum 2022 kemur út önnur skýrsla frá þessu norræna samstarfsverkefni, þar sem fjallað verður um skipulag Norðurlandanna í tengslum við þjónustu og starf með börnum og ungmennum sem glíma við andlega vanlíðan, og dæmi gefin um slíka þjónustu á Norðurlöndunum.