Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

14. janúar 2026

Ný metnaðarfull loftlagsstefna Lögreglunnar á Vesturlandi

Í upphafi árs er gott að líta til baka og meta þann árangur sem náðst hefur og setja markmið til framtíðar. Árangur Lögreglunnar á Vesturlandi í umhverfismálum hefur víða vakið talsverða athygli. Frá fyrstu skrefum embættisins í umhverfismálum hafa framfarirnar verið miklar.

Í desember 2021 var samþykkt fyrsta loftlagsstefna embættisins og markmið sett á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 30%, miðað við árið 2020, fyrir árið 2030. Frá árinu 2021 hefur verið unnið markvisst að því að gera alla þætti starfsemi embættisins eins umhverfisvæna og kostur er og sýna þar með samfélagslega ábyrgð.

Til þess að ná fyrrgreindu markmiði var gerð aðgerðaráætlun, farið yfir flokkun á sorpi, innkaupastefnu, orkunotkun, greining húsnæðis, samgöngur og vistvænni starfshættir kynntir starfsmönnum. Markmiðinu, um 30% minnkun gróðurhúsalofttegunda, náðist strax á árinu 2023, aðallega með útskiptingu eldri lögreglubifreiða fyrir nýjar rafmagnsdrifnar lögreglubifreiðar.

Að auki, þá náði embætti Lögreglunnar á Vesturlandi, í desember 2023., að uppfylla öll fimm Grænu skref Umhverfisstofnunar. Í maí 2024 var Lögreglunni á Vesturlandi veitt sérstök hvatningarverðlaun umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins, Kuðunginn, þar sem fram kom að embættið væri fyrsta lögregluembættið í Evrópu til að rafvæða bílaflota sinn.

Á ársfundi Orkustofnunar á Akureyri, í september 2024, var Lögreglunni á Vesturlandi veitt Silfurdekk Orkustofnunar fyrir að nota 60% hreinorku á ökutæki sín. Í lok árs 2024 var losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi lögreglunnar á Vesturlandi komin niður í 21,1 tonn, úr 109,78 tonnum árið 2020, eða um 80,78% minnkun.
Frá árinu 2020 hefur embættið árlega keypt kolefniseiningar til að jafna út kolefnislosun hvers árs.

Ný loftlagsstefna embættisins var samþykkt 15.12.2025 síðastliðinn. Lögreglustjórinn á Vesturlandi setur með henni áfram háleit markmið í umhverfismálum og ætlar embættinu að vera í fremstu röð stofnana og annara í umhverfismálum. Með henni fylgir tímasett aðgerðaráætlun og markmið sem ná til ársloka 2030. Í lok árs 2030 er stefnt að því að embættið hafi náð að draga saman losun gróðurhúsalofttegunda um 95% sé miðað við árið 2020.

Við vinnu embættisins í umhverfismálum hefur embættið notið ráðlegginga frá Stefáni Gíslasyni og fyrirtæki hans Environice. Viljum við nota tækifærið og þakka Stefáni fyrir veitta aðstoð.