24. október 2024
24. október 2024
Ný aðstaða viðbragsaðila á Norðurlandi eystra
Fulltrúar í aðgerðarstjórn SAk heimsóttu uppgerða stjórnstöð viðbragðsaðila á Norðurlandi eystra á Akureyri.
Á dögunum var tekin í notkun ný aðstaða viðbragðsaðila á Norðurlandi eystra í húsnæði Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri. Nauðsyn þótti að uppfæra aðstöðuna og því var hún færð í annað og stærra rými innan hússins.
Stjórnstöðin hafði sannað gildi sitt í óveðrinu í desember 2019 svo og í gegnum COVID-19 tímabilið þar sem hún var mönnuð svo mánuðum skipti.
Samkvæmt stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum frá árinu 2021 á að vera uppsett stjórnstöð í hverju umdæmi lögreglunnar á landinu til að halda utan um og stýra aðgerðum í almannavarnaástandi sem og þegar önnur samhæfing viðbragðsaðila er þörf.
„Við Ingimar fengum boð um að skoða nýju aðstöðuna og finnst vel hafa tekist til. Fulltrúar SAk í aðgerðastjórn eiga þar borð við hlið fulltrúa HSN en aðkomu að stýringu aðgerða eiga almennt fulltrúar frá lögreglunni, Slökkviliði Akureyrar, svæðisstjórn björgunarsveita, HSN, SAk og RKÍ”, segir Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs sem situr ásamt Ingimari Eydal, skólastjóra sjúkraflutningaskólans, í aðgerðarstjórn SAk.
Smelltu hér til að skoða frétt fá Lögreglunni á Norðurlandi eystra um opnun nýju aðstöðunnar.