22. janúar 2024
22. janúar 2024
Ný aðgerðaráætlun í krabbameinsmálum í mótun
Áætlun um aðgerðir í krabbameinsmálum
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað samráðshóp til að vinna áætlun um aðgerðir í krabbameinsmálum til fimm ára. Niðurstöður hópsins eiga að liggja fyrir í lok apríl og hyggst ráðherra leggja slíka aðgerðaáætlun fyrir Alþingi sem tillögu til þingsályktunar haustið 2024.
Undanfarin ár hafa verkefni og aðgerðir sem ráðist hefur verið í á sviði krabbameinsmála byggt á tillögum ráðgjafahóps heilbrigðisráðherra sem vann að mótun íslenskrar krabbameinsáætlunar og skilaði tillögum sínum árið 2016. Áætlunin tekur til margra þátta, s.s. faraldsfræði krabbameina, skráningar, forvarna og rannsókna.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að krabbameinsáætlunin hafi reynst góður grunnur til að byggja á aðgerðir í málaflokknum. Nú sé hún komin til ára sinna og tímabært að móta nýja áætlun um aðgerðir til næstu ára. Í þeirri vinnu verði byggt á fyrri áætlun eftir því sem efni standa til en jafnframt tekið mið af þróuninni sem orðið hefur á þessu víðfeðma málefnasviði á undanförnum árum: „Ég tel mikilvægt að aðgerðaáætlunin verði mótuð í breiðu og víðtæku samráði. Þá er einnig brýnt í jafn mikilvægum málaflokki og hér um ræðir, sem tengist inn á mörg svið samfélagsins og varðar lýðheilsu þjóðarinnar að tryggja umfjöllun og stuðning Alþingis. Þess vegna hyggst ég leggja þessa áætlun fram sem tillögu til þingsáætlunar og stefni á að það verði næsta haust“ segir Willum Þór.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands á fulltrúa í samráðshópnum, Helga Hafstein Helgason krabbameinslækni og yfirlækni Lyflækningadeildar á Selfossi.
Hann mun einnig flytja erindi um krabbameinslækningar á Suðurlandi á Nýsköpunar- og vísindadegi HSU þann 20. febrúar. Öll eru hjartanlega velkomin og aðgangur ókeypis. Skráning fer fram hér.