Fara beint í efnið

28. febrúar 2024

Niðurstöður þjónustukönnunar TR

Hjá TR er lögð áhersla á góða og faglega þjónustu og því vildum við kanna hug viðskiptavina okkar til þjónustunnar.

Mínar síður Tryggingastofnun

Í þjónustukönnun meðal viðskiptavina TR sem Maskína gerði fyrir TR síðla árs 2023 kom m.a. fram að traust til TR var nánast það sama og traust til annarra fyrirtækja og stofnana sem Maskína hefur gert þjónustukannanir fyrir, eða 3,35 hjá TR og 3,38 hjá öðrum. Sömuleiðis kom fram að ánægja viðskiptavina TR með þjónustuna er svipuð og gerist hjá öðrum fyrirtækjum og stofnunum sem Maskína gerir kannanir fyrir, eða 3,46 hjá TR og 3,90 hjá öðrum.

Spurt var um viðmót og framkomu starfsfólk og töldu 74% svarenda að viðmót og framkoma starfsfólks TR væri mjög gott eða gott, 21% taldi það vera í meðallagi og 5% töldu viðmót og framkomu starfsfólks vera fremur slæmt eða mjög slæmt.

Tæpur helmingur svarenda taldi að TR væri að standa sig mjög eða fremur vel í upplýsingagjöf, tæplega 18% taldi TR vera að standa sig fremur eða mjög illa og og tæp 34% sögðu upplýsingagjöfina vera í meðallagi. Þegar spurt var um vefinn tr.is sérstaklega taldi rétt rúmur helmingur það vera mjög eða frekar auðvelt að nota vefinn til að afla sér upplýsinga. Og rúmlega 16% töldu svo ekki vera. Rúm 32% sögðu það vera í meðallagi auðvelt að nota vefinn. Þess má geta að stór hluti upplýsinga varðandi almannatryggingar er nú kominn á Ísland.is og á vordögum verða allar upplýsingar af tr.is komnar á Ísland.is.

Um tilviljanakennt úrtak til 16.000 einstaklinga var að ræða, til þeirra sem höfðu fengið greiðslur frá TR 1. nóvember sl. Einstaklingarnir fengu netkönnun senda í tölvupósti auk þess sem hringt var í þau sem ekki höfðu staðfest netföng eða höfðu ekki svarað könnuninni. Í heildina svöruðu 1.763 einstaklingar könnuninni.

TR þakkar öllum þeim sem gáfu sér tíma til að svara könnuninni það er okkur mjög dýrmætt að fá viðbrögð beint frá viðskiptavinum okkar. Niðurstöðurnar munu nýtast vel í áframhaldandi stefnumótun og skipulagi á starfseminni til að við getum veitt sem besta og skilvirkasta þjónustu.