Fara beint í efnið

6. ágúst 2024

Námskeið á háskólastigi um heilbrigði plantna

Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur hjá Landi og skógi, leiðbeinir ásamt fleiri sérfræðingum á fjögurra ECTS-eininga námskeiði um heilbrigði platna sem hefst 21. ágúst hjá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands.

Heilbrigði plantna

Á námskeiðinu verður fjallað um skaða af ólífrænum umhverfisþáttum eins og veðri með áherslu á frostskemmdir. Nemendur fá innsýn í heim örvera og smádýra sem skaða plöntur en einnig verður lýst áhrifum skaðvaldanna á plönturnar og vörnum plantnanna egn þeim.

Fjallað verður um lífrænar varnir og gagnlegar örverur og smádýr en í síðari hluta námskeiðsins verður litið á hvaða skaða mismunandi tegundir og ættkvíslir mikilvægra plöntutegunda og ættkvísla þeirra verða af völdum sjúkdóma og meindýra. Rætt verður um skaða í plöntuuppeldi og farið yfir lög og reglugerðir sem snerta plöntuheilbrigði.

Við lok námskeiðsins eiga nemendur að hafa tileinkað sér víðtæka þekkingu og skilning á þeim umhverfisþáttum og lífverum sem hafa áhrif á plöntuheilbrigði, þekkja orsakir og alla algenga skaða á helstu tegundum nytjaplantna sem vaxa hérlendis.

Námskeiðið fer fram í fjarnámi með tveimur staðarlotum. Kennsla hefst miðvikudaginn 21. ágúst og henni lýkur miðvikudaginn 2. október.

Heilbrigði plantna - auglýsing