Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

4. nóvember 2025

Mikilvægt að skapa aðstæður sem laða íslenska lækna heim

Nanna Rún Sigurðardóttir, heimilislæknir og kennslustjóri HSU, var hluti af sendinefnd á vegum Heilbrigðisráðuneytisins sem ferðaðist um Skandinavíu. Hópurinn var með það sameiginlega markmið að kynna íslenskum læknum fyrir þeim umbætum sem hafa átt sér stað, sérstaklega í tengslum við nýjan kjarasamning sem felur í sér bætur á vinnutíma. Með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins voru fulltrúar stofnanna um allt land til kynna stöðu mála á sinni starfsstöð. 

Ferðin gekk vel og voru haldnir fjórir fundir, í Stokkhólmi, Gautaborg, Malmö og Kaupmannahöfn og mætingin var enn betri en búist hafði verið við. Fundaröðin gekk heilt yfir mjög vel, áhugaverðar umræður sköpuðust á hverjum stað.

„Það var ánægjulegt að fá tækifæri til að upplýsa um alla uppbygginguna og nýjungarnar sem hafa átt sér stað á HSU og að áform séu um áframhaldandi þróun“, svaraði Nanna Rún þegar hún var spurð um framgang ferðarinnar. 

Nanna Rún segir sömuleiðis að það sé mikill mannauður sem Ísland á hlut í þarna úti og mikilvægt að reyna að fá sem flesta sérfræðinga heim aftur reynslunni ríkari. En bætir við að það var líka gott að rækta tengslin við íslenska sérfræðinga starfandi á Norðurlöndunum því það er verðmætt samstarf í gangi við ýmsar flóknari meðferðir sem Íslendingar þurfa að sækja erlendis þar sem þær eru ekki í boði hérlendis og þá er gott að vita af íslenskum læknum á hinum megin við hafið.   

Það getur verið snúið að flytjast búferlum milli landa en Nanna segir að fjölskyldan togi flesta til að flytja til baka heim til Íslands, eða íslenska náttúran kalli.

„En það er gríðarlega mikilvægt að vinnuaðstæður séu sambærilegar og þess vegna var frábært að geta kynnt umbæturnar sem hafa orðið víða í íslensku heilbrigðiskerfi, vinnuaðstæður, vinnutíma og tækifærin. Ég held því að þetta muni auka líkur á því að fá fleiri sérfræðinga heim.“ 

Nanna Rún flutti sjálf heim árið 2016 eftir 11 ár við nám og störf í Kaupmannahöfn, og skilur því að það sé risastórt skref að flytja með alla fjölskylduna á milli landa þar sem allir þurfa að finna sig í sínu, makinn, börnin og maður sjálfur.

„Hér á Selfossi gátum við öll fundið okkur. Maðurinn minn vinnur að hluta á Selfossi og hluta í Reykjavík og það er lítið mál að keyra á milli,“ segir Nanna og bætir við, „börnin hafa gríðarlegt magn af tómstundum og íþróttum að velja úr, en á sama tíma er samfélagið nógu lítið til að börnin hjóla sjálf allt sem þau þurfa að sækja og mikil öryggis tilfinning að ala upp börn hér. Þú þekkir nágrannana þína vel og allir passa hvort annað. Þetta er mikill munur frá því að vera bara enn eitt persónunúmerið í risastóru kerfi stórrar erlendrar borgar.”