16. október 2023
16. október 2023
Mikil ánægja með þjónustu SAk samkvæmt þjónustukönnun ríkisstofnana
Árlega stendur Stjórnarráð Íslands fyrir þjónustukönnun meðal ríkisstofnana. Framkvæmdin 2023 var í höndum Maskínu og var könnunin send út í mars, apríl og maí. Fjöldi þátttakenda var 4.904 einstaklingar af öllu landinu, 18 ára og eldri. Alls var spurt um 134 stofnanir.
Sjúkrahúsið á Akureyri kemur heilt yfir mjög vel út úr þessari könnun og nær að bæta sig í nokkrum flokkum. Ánægjulegast er að 92% aðspurðra eru ánægð með þjónustu SAk. Það er bæting um 0,2 stig frá fyrra ári. Einnig var spurt um reynslu af viðmóti og þóttu 95% svarenda þjónusta SAk vera mjög góð eða frekar góð.
Hvað varðar hraða þjónustu og áreiðanleika upplýsinga þá náði SAk að bæta sig um 0,1 stig í hvorri spurningunni.
Ónýtt tækifæri í sjálfsafgreiðslu
Síðasta spurningin í könnuninni varðaði þjónustuleið en þar eru enn ónýtt tækifæri á SAk. Má þar helst nefna sjálfsafgreiðslu en einnig netspjall eða spjallmenni. Af þessum sökum er sími og tölvupóstur enn stærsti liðurinn í þjónustuleiðinni – auk þess að mæta á staðinn.
„Við getum verið mjög stolt af þjónustustiginu okkar og erum innan settra viðmiða hvað varðar biðtíma eftir lækni á bráðamóttöku en eigum aðeins í land varðandi ýmsa biðlista. Hvað varðar tækifæri í sjálfsafgreiðslu þá þarf að skoða hvaða leiðir myndu henta sjúkrahúsinu best þar sem þetta er stór hluti af nútímanum. Þurfum og viljum samt halda í persónulegu tengslin sem við metum svo mikils hér á SAk,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk.Hér má nálgast niðurstöður könnunarinnar.