Fara beint í efnið

18. desember 2023

Metfjöldi umsókna um sérnámsgrunnstöður hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri

Alls sóttu 30 sérnámsgrunnslæknar um pláss á Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir námsárið 2024-2025.

Sérnámsgrunnlæknar-1

Sérnámsgrunnsárið er fyrsti hluti formlegs sérnáms lækna á Íslandi og tími reynslu og náms fyrir nýútskrifaða lækna. Starfstöðvarnar eru samþykktar af mats- og hæfisnefnd sem fullgildar námsstöðvar. Nú stendur yfir vinna við niðurröðun vegna umsókna sérnámsgrunnslækna fyrir árin 2024-2025. Alls sóttu 30 sérnámsgrunnslæknar um pláss á SAk og er það metfjöldi umsókna.

„Við höfum síðustu ár unnið markvisst að því að laða að sérnámslækna og sérnámsgrunnslækna. Til að mynda létum við gera kynningarmyndbönd sem við höfum notað í tengslum við viðburði og vísindaferðir og sýnt á Læknadögum. Þar reyndum við að gefa námslæknum innsýn inn í daglegt starf á SAk og segja frá lífsgæðum á Akureyri, en eins og við öll vitum sem hér búum að hér er allt til alls, frábær tækifæri til útivista og stutt í allt,“ segir Laufey Hrólfsdóttirdeildarstjóri mennta- og vísindadeildar.

Hér má sjá kynningarmyndböndin fyrir sérnám- og sérnámsgrunn á SAk: https://www.youtube.com/playlist?list=PLOJNW9nwalTRr419z2GO1yTONygZQ0cG5

Mennta- og vísindadeildin hefur skipulagt kynningu fyrir verðandi sérnámsgrunnslækna á haustin þar sem boðið er í mat og drykk og námstækifærin á SAk kynnt. Hannes Petersen kennslustjóri á SAk hefur séð um kynninguna: „SAk býður læknum og læknanemum hæfilega stórt starfsumhverfi þar sem þeir geta nálgast fjölbreytt viðfangsefni undir góðri handleiðslu. Á sama tíma fá þeir gnótt af tækifærum til að stíga sín eigin spor á öruggan hátt.“

Viðbótarkjör

Sjúkrahúsið býður góð kjör og reynir að aðstoða námslækna við að finna húsnæði. „Við bjóðum upp á ákveðin viðbótarkjör eins og húsnæðisstyrk, flutningsstyrk og fasta yfirvinnu fyrir sérnámslækna og sérnámsgrunnslækna sem taka tímabil á SAk. Við vitum að það getur verið erfitt að flytja sig um set og viljum því styrkja námslækna sem hafa áhuga á því að koma norður.“ segir Laufey að lokum.

Sumarstörf fyrir læknanema

SAk hefur nú opnað fyrir umsóknir læknanema fyrir næsta sumar. Um er að ræða störf á bráðamóttöku, lyflækningadeild, geðdeild og skurðlækningadeild (skurð- og bæklunarlækningar)

Hér geta læknanemar sem lokið hafa 4., 5. og 6. námsári lagt inn umsókn. Nánar á Starfatorgi hér: https://island.is/starfatorg/x-35552