Fara beint í efnið

18. mars 2022

Málþing í tilefni alþjóðadaga um svefn og hamingju

Í dag, 18. mars er alþjóðadagur svefns, markmiðið með deginum er að vekja athygli á mikilvægi svefns fyrir heilsu og vellíðan

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Slagorð dagsins í ár er „Quality Sleep, Sound Mind, Happy World“ og er deginum m.a. fagnað með því að dreifa skilaboðum um mikilvægi svefns. Á Heilsuveru má finna góð ráð til að stuðla að betri svefni.

Sunnudaginn 20. mars er alþjóðadagur hamingju. Yfirskrift dagsins í ár er „Choose to help“. Það að hjálpa öðrum stuðlar að vellíðan bæði þeirra sem þiggja og þeirra sem gefa. Þá kemur skýrslan „World Happiness Report“ út fyrir þennan dag þar sem birtar eru niðurstöður rannsókna frá yfir 150 löndum um það hvernig fólk metur eigið líf. Ísland er sem áður meðal þeirra efstu á lista yfir hamingjusömustu þjóðir heims og er í þriðja sæti fyrir árið 2021. Hægt er að skoða skýrsluna í heild sinni.

Málþing í tilefni þessa daga verður haldið þann 21. mars nk. undir yfirskriftinni Gæðasvefn, heilbrigði og hamingja.

Með erindi á málþinginu verða Dr. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Betri svefns, Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis og Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu.

Málþingið fer fram í Háskólanum í Reykjavík.
Viðburðurinn verður einnig í beinu streymi. Hlekkur á streymi.

Allar frekari upplýsingar má finna á Facebook viðburði málþingsins: Gæðasvefn, heilbrigði og hamingja.

Skipuleggjendur málþingsins, auk embættis landlæknis eru Betri svefn, Svefnsetur Háskólans í Reykjavík, Rannsóknir og greining og Háskólinn í Reykjavík.

Hér má finna frekari upplýsingar um alþjóðadagana:
https://www.dayofhappiness.net
https://worldsleepday.org/

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir
sviðsstjóri lýðheilsusvið