8. apríl 2022
8. apríl 2022
Mælingar á líðan úr vöktun embættis landlæknis á tímum COVID-19 og tengsl við fjárhagserfiðleika
Í nýjum Talnabrunni embættis landlæknis er fjallað um líðan fullorðinna Íslendinga árið 2021 samanborið við árin á undan hvað varðar andlega heilsu, streitu, svefn, einmanaleika, hamingju og velsæld.
Í nýjum Talnabrunni embættis landlæknis er fjallað um líðan fullorðinna Íslendinga árið 2021 samanborið við árin á undan hvað varðar andlega heilsu, streitu, svefn, einmanaleika, hamingju og velsæld. Þessar mælingar voru einnig skoðaðar sérstaklega í tengslum við fjárhagserfiðleika, sem rannsóknir hafa sýnt að eru mikilvægur félagslegur áhrifaþáttur heilbrigðis og vellíðanar. Tímabilið sem tekið var til skoðunar nær frá árinu áður en heimsfaraldur COVID-19 skall á og yfir þau tvö ár sem faraldurinn hefur geisað og gefur því tækifæri til að skoða þróunina yfir tímabil heimsfaraldursins.
Verri andleg heilsa, minni hamingja og meiri einmanaleiki eftir COVID-19
Gögn úr vöktun embættis landlæknis sýna almennt litlar breytingar á þessum mælingum milli áranna 2020 og 2021 en sé litið til ársins 2019, þ.e. áður en heimsfaraldurinn hófst, má sjá að ýmsar mælingar hafa færst til hins verra. Færri meta andlega heilsu sína góða en áður og sömuleiðis hefur hlutfall þeirra sem telja sig hamingjusöm lækkað. Fleiri greina frá einmanaleika en litlar breytingar hafa orðið á svefni, streitu og velsæld. Almennt er það svo að mun færri eru hamingjusöm og meta andlega heilsu sína góða í yngri aldurshópum en þeim eldri og einmanaleiki er sömuleiðis mestur meðal þeirra yngri.
Mikill munur á hópum eftir fjárhagsstöðu
Þegar þessar mælingar eru skoðaðar í tengslum við fjárhagserfiðleika standa þau sem eiga erfitt með að ná endum saman mun verr á öllum þáttum en þau sem eiga auðvelt með að ná endum saman. Hvergi er þó eins mikill munur á milli hópa eftir fjárhagsvanda eins og þegar einmanaleiki er skoðaður en þar er munurinn á þeim sem eiga auðvelt og erfitt með að ná endum saman tæplega fjórfaldur. Tæplega þrefalt færri upplifa velsæld meðal þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman samanborið við þau sem eiga auðvelt með það, tvöfalt færri telja sig hamingjusöm og meira en tvöfalt fleiri greina frá mikilli streitu í daglegu lífi. Í fyrrnefnda hópnum eru jafnframt helmingi færri sem meta andlega heilsu sína góða og ná fullum nætursvefni en í þeim síðarnefnda.
Alvarleg staða meðal þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman
Staðan meðal þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman er alvarleg á öllum mælingum sem tengjast andlegri líðan. Árið 2021 mat minna en helmingur fólks í fyrrnefnda hópnum andlega heilsu sína góða, aðeins helmingur náði fullum nætursvefni og þriðjungur taldi sig hamingjusaman. Helmingur hópsins greindi frá mikilli streitu í daglegu lífi, þriðjungur fann oft eða mjög oft fyrir einmanaleika og aðeins 8% upplifði velsæld. Allt aðrar tölur sjást fyrir þau sem eiga auðvelt með að ná endum saman. Þar mátu 80% andlega heilsu sína góða, 70% fengu nægan svefn, tvö af hverjum þremur töldu sig hamingjusöm og 20% upplifðu velsæld. Fimmtungur greindi frá mikilli streitu í daglegu lífi og færri en einn af hverjum tíu fundu fyrir einmanaleika.
Mikilvægt að bregðast við ójöfnuði til heilsu
Þessar niðurstöður undirstrika þann ójöfnuð til heilsu sem er til staðar í íslensku þjóðfélagi og mikilvægi þess að bregðast við. Þótt fjárhagsvandi einskorðist ekki við tekjulægri hópa er hann mun algengari meðal þeirra sem búa við lakari kjör. Í gögnum embættisins má t.d. sjá að árið 2021 átti tæplega helmingur fólks í atvinnuleit (41%) og öryrkja (44%) erfitt með að ná endum saman en meðal almennra launþega og sjálfsætt starfandi voru hlutföllin 11% og 9%. Þessar niðurstöður undirstrika jafnframt að aðgerðir til að bæta heilsu og líðan þjóðarinnar þurfa að teygja sig umfram þær sem beinast að heilsuhegðun einstaklinga og ná til stærri félags- og efnahagslegra skilyrða á borð við fátækt, húsnæði, menntun og atvinnu.
Mikilvægt er að stjórnvöld átti sig á því að þetta eru veigamiklir áhrifaþættir sem snerta heilsu og velsæld þjóðarinnar til langframa.
Nánari upplýsingar veitir:
Sigrún Daníelsdóttir, verkefnisstjóri geðræktar
sigrun.danielsdottir@landlaeknir.is