Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

16. ágúst 2004

Þessi frétt er meira en árs gömul

Lögreglan á Ísafirði leggur hald á fíkniefni.

Uppúr kl.19:00 laugardaginn 14. ágúst sl. handtók lögreglan á Ísafirði þrjá aðila, karlmann á þrítugsaldri, annan á fertugsaldri og konu á þrítugsaldri. Handtakan fór fram á almannafæri á Ísafirði. Ástæða handtökunnar var grunur um fíkniefnamisferli. Í framhaldi af handtökunni var framkvæmd húsleit, að fengnum úrskurði héraðsdóms Vestfjarða, í íbúð sem annar karlmannanna býr í á Ísafirði. Parið reyndist vera gestir þess fyrrnefnda. Fíkniefni fundust í íbúðinni og í bifreið annars karlmannsins.

Við leitina fundust um 15 grömm af kannabisefnum og tæp 3 grömm af amfetamíni, að auki 83 töflur sem taldar eru innihalda tvenns konar efni, annars vegar ólöglega efnið efedrín og hins vegar ólöglega innflutt hormónalyf, svk. steralyf.

Þremenningarnir voru í haldi lögreglunnar þangað til í gærdag er þeim var sleppt lausum. Játning liggur fyrir um að í umræddri íbúð hafi farið fram fíkniefnaneysla, þar sem fleiri komu við sögu, ásamt því að einn aðilanna viðurkenndi að hafa selt lítilsháttar magn fíkniefna á Ísafirði.

Lagt var hald á tæplega 70.000.- kr. sem voru í fórum eins aðilans. Grunur leikur á að um sé að ræða söluágóða vegna fíkniefnasölunnar.

Karlmennirnir tveir hafa áður komið við sögu lögreglunnar vegna fíkniefnamála en stúlkan ekki áður.

Fikniefnaleitarhundurinn Dofri, sem er í eigu eins varðstjórans í lögregluliðinu á Ísafirði, tók þátt í aðgerðum lögreglunnar.

Lögreglan vill hvetja alla ábyrga borgara til að koma upplýsingum til lögreglunnar, búi þeir yfir grunsemdum um meðhöndlun fíkniefna í umdæminu. Lögreglan hyggst ekkert gefa eftir í afskiptum sínum af fólki sem meðhöndlar fíkniefni.