Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

23. október 2012

Þessi frétt er meira en árs gömul

Lögregla kölluð til vegna fargjaldadeilu

Til svo djúpstæðs ágreinings um fargjald kom milli leigubílstjóra og tveggja farþega í Reykjanesbæ í fyrrinótt að lögreglan á Suðurnesjum var kölluð til. Fram kom, að leigubílstjórinn hafði sagst mundu taka 7.000 krónur fyrir tiltekinn túr. Síðan sagðist hann hafa mismælt sig, því gjaldið yrði ekki ofangreind upphæð heldur 10.000. Þegar komið var á ákvörðunarstað krafði hann farþegana um 12.500 krónur samkvæmt gjaldmælinum. Farþegarnir buðu þá 10.000 sem bílstjórinn tók og vildi að þeir borguðu sér 2.500 til viðbótar. Þá brugðust þeir illa við og endurkröfðu hann um 3.000 krónur, þannig að fargjaldið yrði 7.000 eins og upphaflega hafði verið samið um. Lögregla benti viðkomandi á að yrðu eftirmál af þessum flókna ágreiningi væri hægt að leggja fram kæru á næsta virka degi á næstu lögreglustöð.

Þóttist hafa lent í árekstri

Árekstur varð milli tveggja bíla í Keflavík um helgina. Ökumaður annars bílsins tók sprettinn og lét sig hverfa af vettvangi. Skömmu síðar hringdi maður í lögregluna á Suðurnesjum og kvaðst vera sá brotthlaupni. Lögregla hafði hins vegar grunsemdir um að hann væri að taka á sig sök annars manns. Haft var samband við hinn grunaða en hann neitaði að hafa verið á staðnum, hvað þá að hafa orðið valdur að umferðaróhappi. Síðan hætti hann að svara í símann. Þriðji maðurinn, eigandi bílsins, hafði samband við lögreglu til að nálgast bíl sinn. Hann sagðist hafa lánað hlaupagarpinum hann. Honum var bent á að sá sem ber ljúgvitni á yfir höfði sér kæru og skelfdist hann þá mjög. Rannsókn málsins er í fullum gangi.