6. desember 2022
6. desember 2022
Lionsklúbbur Akraness færir gjöf
Fyrir skömmu heimsóttu 20 félagar í Lionsklúbbi Akraness sjúkrahúsið á Akranesi og afhentu gjafabréf.
Fjármagnið verður nýtt til kaupa á færanlegu ómskoðunartæki, en notkun slíkra tækja færist í vöxt meðal lækna og hefur verið á tækjabeiðnalista lækna sjúkrahússins í nokkurn tíma.
Björn Gunnarsson yfirlæknir svæfingadeildar tók við gjafabréfinu úr hendi Valdimars Þorvaldssonar formanns klúbbsins og færði þeim þakkir fyrir hönd stofnunarinnar. Björn fór stuttlega yfir virkni og sögu ómtækja í læknisfræði og svaraði spurningum félagsmanna ásamt Fritz Berndsen yfirlækni handlækningadeildar og Rún Halldórsdóttur svæfingalækni.