Fara beint í efnið

5. desember 2022

Leiðbeiningar um notkun neuraminidasa hemla við inflúensulík veikindi

Inflúensufaraldur er hafinn þennan veturinn. Ýmsar leiðir eru til að draga úr áhrifum faraldursins.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

A. Forvarnir:

1. Bólusetning er mikilvæg leið til að draga úr alvarleika inflúensuveikinda, sérstaklega hjá áhættu­hópum sem eru margir hinir sömu og áhættuhópar m.t.t. COVID-19. Því er rétt að minna á að bóluefni gegn inflúensu er til í landinu og geta heilsugæslur og aðrir sem bólusetja áhættu- og forgangshópa gegn inflúensu pantað það hjá Distica meðan birgðir endast. Sérstaklega er mikilvægt að heilbrigðis­starfsmenn og einstaklingar með áhættuþætti fyrir alvarlegum veikindum vegna inflúensu (sjá hér að neðan) fái bólusetningu.

Forgangshópar vegna inflúensubólusetningar veturinn 2022-2023 eru

  • Börn fædd 1.1.2020-31.6.2022 – athugið að ekki má bólusetja fyrr en barn hefur náð 6 mánaða aldri.

  • 60 ára og eldri.

  • Einstaklingar með langvinna sjúkdóma sem leggjast á lungu, hjarta, nýru eða lifur, sykursýki, illkynja sjúkdóma, aðra ónæmisbælandi sjúkdóma eða meðferðir.

  • Heilbrigðisstarfsmenn sem sinna einstaklingum í áhættuhópum.

  • Einstaklingsbundnar sóttvarnir sem við þekkjum orðið vel m.t.t. COVID-19 (handhreinsun, grím­ur, mæta ekki til vinnu eða í fjölmenni með einkenni) draga einnig úr dreifingu og smithættu vegna inflúensu.

B. Meðferð vegna inflúensulíkra veikinda og staðfestrar inflúensu:

1.  Vegna mikilla samlegðaráhrifa faraldra inflúensu, RS veiru og COVID-19 og álags á heilbrigðisstofnunum núna er tilefni til að hvetja til meðferðar með neuraminidasa hemli (oseltamivir eða zanamivir) án þess að inflúensugreining sé staðfest skv. eftirfarandi viðmiðum:

  • Inflúensulík einkenni til staðar, hafa ekki staðið lengur en 48 klst.

  • Hraðpróf m.t.t. COVID-19 neikvætt.

  • Áhættuþættir fyrir alvarlegum inflúensuveikindum til staðar hjá einstaklingi

    • 60 ára og eldri

    • Langvinnir sjúkdómar sem leggjast á lungu, hjarta, nýru eða lifur, sykursýki, illkynja sjúkdómar, aðrir ónæmisbælandi sjúkdómar eða meðferðir.

Mælt er með að staðfesta inflúensugreiningu þótt meðferð hefjist þegar sýni er tekið ef sjúklingur leggst inn á sjúkrastofnun vegna veikindanna eða ef áhættuþættir eru til staðar hjá heimilisfólki einstaklings sem fer heim eftir skoðun, þá má íhuga fyrirbyggjandi meðferð hjá einstaklingi með áhættuþætti (sjá leiðbeiningar).

2.  Lyfjabirgðir:

  • Innflytjandi oseltamivir hylkja á efni á lager hjá Parlogis og hægt er að skrifa lyfseðil þar sem efni liggur ekki á stofnun en aðgengi að lyfjaverslunum er gott.

  • Birgðir sóttvarnalæknis sem keyptar voru vegna heimsfaraldurs inflúensu 2009–2010 eru enn gagnlegar þótt fyrningartími sé liðinn, þetta hefur verið staðfest í stöðugleikaprófunum og á við um oseltamivir í báðum lyfjaformum (mixtúra 15 mg/ml og hylki 75 mg).

    • Heilsugæslustöðvar og aðrar stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins sem eiga efnið hjá sér mega nota þær birgðir til að meðferð tefjist síður.

3.  Skammtar: Sjá töflu á bls. 24 í leiðbeiningum um notkun inflúensulyfja.

Sóttvarnalæknir