21. október 2025
21. október 2025
Landsnefndin fyrri 1770–1771 I-VI nú aðgengileg í stafrænni útgáfu
Bækurnar Landsnefndin fyrri 1770–1771 I–VI eru nú aðgengilegar í stafrænni útgáfu. Á vef Landsnefndarinnar hefur verið hægt að nálgast ítarlegar upplýsingar um skjölin, rannsóknarverkefnið og skoða frumrit skjalanna en nú er einnig hægt að nálgast öll sex bindin í rafrænni útgáfu.

Fyrstu tvö bindi ritraðarinnar komu út árið 2016 og næstu fjögur á árunum 2017–2022. Skjöl nefndarinnar veita einstæða innsýn í íslenskt samfélag um 1770, þegar nefndin ferðaðist um landið og safnaði upplýsingum um þjóðlíf, atvinnuhætti og stjórnskipan.
Bækur ritraðarinnar skiptast efnislega þannig:
I. Bréf frá almenningi (2016)
II. Bréf frá prestum (2016)
III: Bréf frá embættismönnum (2018)
IV. Bréf frá háembættismönnum (2019)
V. Fundargerðir og bréf nefndarinnar (2020)
VI. Vinnugögn nefndarinnar (2022)
Safnið inniheldur frumbréf bæði á íslensku og dönsku, eins og þau voru upprunalega send nefndinni. Flest íslensku bréfin voru á sínum tíma þýdd af ritara nefndarinnar, Eyjólfi Jónssyni, en þau sem bárust rétt fyrir brottför nefndarinnar voru aldrei þýdd — og er bætt úr því hér í tengslum við útgáfuna. Bókunum fylgja fræðilegar greinar, ítarlegar skýringar og nafna- og efnisorðaskrár, allt bæði á íslensku og dönsku.
Bækurnar voru gefnar út í samstarfi við Ríkisskjalasafn Danmerkur og Sögufélag og þær er hægt að kaupa á vef Sögufélags eða í helstu bókaverslunum.
Hér er hægt að skoða vef Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771 og nálgast stafræna útgáfu af bókunum.
