Fara beint í efnið

7. ágúst 2024

Landi og skógi fært eldstál úr íslensku gæðajárni að gjöf

Tilraunir með fornar aðferðir til járnvinnslu hafa leitt í ljós að búa má til gæðajárn úr íslenskum mýrarrauða. Land og skógur hefur fengið að gjöf eldstál sem smíðað var úr slíku járni. Viðarkol úr Vaglaskógi voru notuð við járnvinnsluna.

Eldstál úr alíslensku gæðajárni. Ljósmynd: Ágúst Sigurðsson

Land og skógur fékk áhugaverða heimsókn í Gunnarsholt nú í byrjun ágústmánaðar. Þar kom áhugaverður maður við hjá Ágústi Sigurðssyni forstöðumanni, Reynir A. Óskarsson, bardagalistamaður og áhugamaður um fornnorræna menningu. Hann hefur tekið þátt í starfi innlends og erlends áhugafólks um bardagaaðferðir norrænna manna til forna en líka siði þeirra, aðferðir og menningu almennt.

Margvíslegar rannsóknir hafa farið fram undanfarinn aldarfjórðung eða svo undir forystu hreyfingar áhugafólks sem kallast Hurstwic. Auk rannsókna á bardagalistum fornmanna hefur verið unnið að ýmsum tilraunum. Í sumar fóru fram tilraunir á Eiríksstöðum í Haukadal í Dölum á bruna í torfhúsum eins og hér stóðu á landnámsöld, meðal annars til að sjá hvernig eldur hegðar sér þegar hann er lagður að dyrum slíkra húsakynna, hvað gerist inni í húsinu og til dæmis hvernig nota má aðferðir sem lýst er í fornum bókum til að verjast eldinum, til dæmis með því að nota mysu og dýrahúðir.

Fyrir fáeinum árum voru líka gerðar tilraunir við að endurvekja aðferðir formanna við járnvinnslu úr mýrarrauða. Þá var meðal annars samið við Rúnar Ísleifsson, skógarvörð á Vöglum, um að framleiða viðarkol úr íslenskum viði í gömlum kolagerðarofni sem er í Vaglaskógi. Kolin voru nýtt í tilraunir með járnvinnsluna sem fram fóru á Eiríksstöðum og í stuttu máli kom í ljós að vel er hægt að vinna gæðajárn úr íslenskum mýrarrauða. Lengi vel var talið að járnið sem unnið var með þeim hætti á Íslandi hefði verið lélegt en komið hefur í ljós að svo var alls ekki. Járnið var þvert á móti eftirsótt útflutningsvara og nýttist vel til ýmissa nota.

Nú hefur verið sýnt fram á gæði slíks járns til smíða því smíðuð voru þrjú svokölluð eldstál úr járninu sem unnið var á Eiríksstöðum. Slík eldstál voru notuð til að kveikja eld með því að slá þeim við stein sem til þess hentar, til dæmis jaspis. Í stuttu myndbandi sem Ágúst tók þegar Reynir heimsótti hann í Gunnarsholt sést hvernig neistinn myndast þegar stálinu er slegið við steininn.

Gjöfina færði Reynir Landi og skógi í þakklætisskyni fyrir aðstoðina við verkefnin að Eiríksstöðum, sérstaklega fyrir að útvega alíslensk viðarkol til járngerðartilraunanna og timbur til smíða. Þess má geta að hagleiksmaðurinn Bjarki Sigurðsson, verkstjóri hjá skógarverðinum á Hallormsstað, tók þátt í að reisa torfhúsin sem notuð voru í sumar við brunatilraunirnar á Eiríksstöðum. Þessar tilraunir eru gerðar með vísindalegum hætti og í myndbandinu hér að neðan lýsir doktor William R. Short, forystumaður í samtökunum Hurstwic, fyrstu niðurstöðum þessara rannsókna. Þess má geta að auðvitað var eitt eldstálanna úr alíslenska járninu notað við að kveikja eldinn við tilraunirnar.

Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, tekur við eldstálinu úr hendi Reynis A. Óskarssonar. Ljósmynd: Elín Fríða Sigurðardóttir.