15. október 2024
15. október 2024
Land og skógur hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar
Aldrei hafa fleiri tekið við viðurkenningu jafnréttisvogarinnar en í ár. Alls hlutu 130 aðilar viðurkenninguna að þessu sinni og var Land og skógur þar á meðal. Gróðursett er eitt tré fyrir hvern viðurkenningarhafa í Jafnréttislund FKA í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur.
Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Viðurkenningin var veitt við sérstaka athöfn 10. október. Hún er veitt þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórn.
Í tilkynningu frá FKA segir að viðurkenningin hafi veitt níutíu og þremur fyrirtækjum, fimmtán sveitarfélögum og tuttugu og tveimur opinberum aðilum úr hópi 247 þátttakenda sem undirritað hafa viljayfirlýsingu um þetta markmið. Viðurkenningin hefur aldrei verið veitt fleiri aðilum. Miðað er við að kynjahlutfall sé að minnsta kosti 40/60 í efsta stjórnendalagi. Fyrir hönd Lands og skógar tók Elín Fríða Sigurðardóttir við viðurkenningunni, sviðstjóri fjármála- og þjónustusviðs.
Jafnrétti hefur bein áhrif á umhverfið
Frá árinu 2020 hafa forsvarskonur verkefnisins gróðursett tré í Jafnréttislundi sem fundinn var staður í Heiðmörk í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Gróðursett er eitt tré fyrir hvern viðurkenningarhafa í hlíð þar sem er komið er inn í Heiðmörk Vífilstaðamegin. Með trjánum sem bætast við í ár hafa samtals verið sett niður 392 tré í Jafnréttislundinum á síðustu 5 árum. Við valið er horft til þess að velja margar ólíkar tegundir af trjám, sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin stuðlar að, segir í tilkynningu FKA. Markmið Jafnvægisvogarinnar sé að endurtaka þetta árlega og sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti.