4. október 2024
4. október 2024
Lágmarks matarsóun í eldhúsi SAk
Í eldhúsi SAk er kappkostað við að halda matarsóun í algjöru lágmarki.
Allar vörur sem eru pantaðar í eldhús SAk eru yfirfarnar og stimplar skoðaðir og þær settar á rétta geymslustaði. Ef líftími er stuttur ekki er séð fyrir að varan verði notuð er henni skilað til byrgja og ný fengin í staðinn. „Við reynum eftir fremsta megni að elda það magn af mat sem við teljum okkur þurfa í hvert sinn, sá matur sem eftir verður er kældur eins hratt og kostur er og afgangar notaðir í rétti á salatbar eða frystir og notaðir síðar. Helst er það soðið grænmeti sem ekki er hægt að nýta,” segir Linda Hrönn Benediktsdóttir matartæknir í eldhúsi SAk.
Afgangssúpur notaðar í ljúffeng brauð
Súpur sem eftir verða eru kældar og notaðar í brauð sem bökuð eru á staðnum og boðið upp á með salatbar. Einnig er allur raspur sem notaður er gerður úr afgöngum og skorpum af samlokubrauði. Þá er afgangur af smábrauði nýttur í brauðteninga. „Skyldi einhver vara sem er enn í lagi renna út á tíma bjóðum við hana ókeypis til starfsfólks,“ segir Linda.
Bregðast við útfrá afgöngum á matarbökkum skjólstæðinga
Sjúklingum er skammtaður matur á bökkum eftir fyrirfram útreiknuðum næringarviðmiðum. Reglulega gerir eldhúsið athuganir á þeim afgöngum sem koma til baka með bökkunum og er skammtastærðum breytt samkvæmt niðurstöðum þeirra. „Það kom einna helst í ljós að skjólstæðingar voru ekki hrifnir af hráu grænmeti og því tókum við það út nema þá fyrir ákveðnar fæðisgerðir sem eru veittar samkvæmt næringarráðleggingum. Við reynum ávalt að bregðast við til að minnka matarsóun,“ segir Linda.
Starfsfólk hvatt til að taka sér einungis það á diskana sem það ætlar að borða
Starfsfólk SAk í matsal skammtar sér sjálft á diska og eins og gefur að skilja er erfitt fyrir eldhús að gera ráð fyrir fjölda skammta þar sem aldrei er vitað fyrirfram hversu margir koma í mat. Samkvæmt Grænum skrefum er matarsóun í matsal mæld reglulega og yfirleitt hafa þessar kannanir komið vel út. „Við stefnum fljótlega aftur á slíka könnun og því er um að gera að starfsfólk taki sér tak og hugsi áður en það tekur sér of stóra skammta á diskana sína. Að minnka matarsóun í matsal er samvinnuverkefni allra sem þar eiga hlut að máli,“ segir Linda að lokum.
Starfsfólk og skjólstæðingar SAk hafa löngum lofað heimabakaða brauðið og því látum við hér fylgja einna pottþétta uppskrift af slíku brauði.
Kaldhefað brauð SAk
450 g hveiti
30 g annað mjöl ( magn fer þó eftir grófleika)
6 g þurrger
5 g salt
30 g fræ (eða annað t.d. hnetur, trönuber, sólþurrkaðir tómatar o.þ.h.)
375 ml kaldur vökvi (t.d. kældar súpur, vatn, maltöl eða hvað sem hugurinn girnist)
Einnig er hægt að setja allskonar krydd t.d. brauðstangakrydd ef vill.
Allt hnoðað saman geymt í kæli yfir nótt, mótað og bakað við 175°C í um 40 mín.
Gott er að hafa skúffu með vatni í ofninum meðan bakað er.