Fara beint í efnið

29. mars 2022

Krabbameinsskimanir 2021 - boð og mæting

Embætti landlæknis hefur nú birt skýrslu sem tekur saman tölur um boð og mætingu í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini á landsvísu árið 2021.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Lýðgrundið skimun fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum er mikilvæg til þess að draga úr tíðni þessara krabbameina og bæta lífslíkur. Til þess að skimanir skili tilætluðum árangri þarf að fylgjast með framkvæmd þeirra, m.a. þátttöku og bregðast við ef mæting er undir væntingum.

Mæting í skimanir fyrir leghálskrabbameini og fyrir brjóstakrabbameini hefur verið undir viðmiðum til fjölda ára og brýnt að bæta úr. Ef á heildina er litið dró enn úr þátttöku í báðum tegundum þessara skimana árið 2021 samanborið við árin á undan. Nærtækasta skýringin eru breytingar á fyrirkomulagi skimana sem tóku gildi í ársbyrjun 2021 og einnig getur heimsfaraldur COVID-19 hafa haft áhrif.

Embætti landlæknis var falin heildaryfirsýn skimana fyrir krabbameinum, þ.m.t. ábyrgð á leiðbeiningum um skimun. Auk þess ber embætti landlæknis ábyrgð á að sett verði árangursviðmið og gæðavísar, gæðakröfur til þjónustuaðila, gæðaeftirlit með skimun og árangursmat. Loks fer embættið með eftirlit með árangri og framkvæmd skimunar og er þessi skýrsla liður í því eftirliti.

Óumdeilt er að kynningu meðal almennings á breyttu fyrirkomulagi skimana var ábótavant en Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins setti nýlega af stað kynningarátak og hvatningu til kvenna að mæta í leghálsskimun og vonandi skilar sú vitundarvakning sér í betri mætingu. Enn fremur er ætlunin að ráðast í átak til að bæta mætingu í brjóstaskimun.

Framundan er það verkefni að bæta framkvæmd enn frekar og sérstaklega að bæta mætingu kvenna sem er frumskilyrði þess að lýðgrunduð skimun skili þeim árangri sem til er ætlast. Það er sameiginlegt verkefni allra sem að málum koma. Annað mikilvægt verkefni er að fylgjast nánar með gæðum og árangri skimunar og mun embætti landlæknis gefa út aðra skýrslu þar að lútandi.

Nánari upplýsingar veitir:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is