Fara beint í efnið

18. desember 2024

Kortlagning ræktunarlands á landsvísu

Framfylgd landsskipulagsstefnu

dreamstime s 24191376

Hafin er vinna við kortlagningu á gæðum ræktunarlands.

Markmið verkefnisins er að gæði ræktunarlands verði kortlögð á landsvísu út frá bestu fáanlegu gögnum svo kortlagningin nýtist við skipulagsgerð og aðra stefnumótun um landnotkun, meðal annars til að tryggja megi fæðuöryggi. Matvælaráðuneytið og Land og skógur vinna að kortlagningunni.

Verkefnið er í samræmi við landbúnaðarstefnu til ársins 2040 og aðgerð 5 í aðgerðaáætlun landsskipulagsstefnu 2024-2038 þar sem kveðið er á um kortlagningu á ræktunarlandi sem hentar vel til matvælaframleiðslu. Aðgerðum í aðgerðaáætlun er ætlað að stuðla að framgangi þeirra markmiða sem sett eru fram í stefnunni en í landsskipulagsstefnu kemur meðal annars fram áhersla á:

  • að ákvarðanir í skipulagi um ráðstöfun lands byggi á flokkun landbúnaðarlands með tilliti til ræktunarskilyrða,

  • að skipulag stuðli að möguleikum á fjölbreyttir og hagkvæmri nýtingu landbúnaðarlands í sátt við umhverfið og jafnframt að fæðuöryggi þjóðarinnar og

  • að við skipulagsgerð í dreifbýli verði landi sem hentar vel til ræktunar matvæla almennt ekki ráðstafa til annara nota.

Við kortlagninguna verður land flokkað í samræmi við leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands með tillit til hæfni til ræktunar. Megináhersla verður lögð á land sem skilgreint er sem mjög gott og gott ræktunarland, með það fyrir augum að styðja við fæðuöryggi til lengri tíma litið.

Afurð verkefnisins verður landupplýsingagrunnur sem sveitarfélög geta nýtt við flokkun á landbúnaðarlandi og stefnumörkun um nýtingu og vernd í skipulagsáætlunum. Grunnurinn verður í umsjón Lands og skógar og Skipulagsstofnunar.