Fara beint í efnið

14. ágúst 2024

Kjötmjölið virkar vel

Dreifing kjötmjöls til að flýta fyrir uppgræðslu lands hefur borið mjög góðan árangur á Suðurlandi, ekki síst þar sem markmiðið er að klæða landið birkiskógi. Aðferðin við dreifinguna sést vel á myndbandi sem tekið var á Heiðarlæk á Rangárvöllum í sumar þar sem landeigandi stundar öflugt uppgræðslustarf og skógrækt.

Kjötmjölsdreifing á Heiðarlæk sumarið 2024. Skjámynd úr myndbandi Ævars Levís Pierresonar

Heiðarlækur er svæði sem tekið hefur verið út úr jörðinni Heiði á Rangárvöllum, nokkru ofan Gunnarsholts. Þar og á tveimur aðliggjandi jörðum hefur landeigandinn, Októ Einarsson, unnið að uppgræðslu í samvinnu við Land og skóg frá árinu 2015 og er einnig með samning við stofnunina um skógrækt á lögbýlum.

Á svæðinu er mikið um sandi orpin hraun. Þar hefur verið borinn á tilbúinn áburður og aðallega birki gróðursett í kjölfarið ásamt nokkru af ösp og stafafuru. Undanfarin ár hefur verið dreift blöndu af kjötmjöli og hænsnaskít á rýra mela ásamt tilbúnum áburði þar sem erfitt er að koma við dreifingu á kjötmjöli. Slík dreifing sést vel í meðfylgjandi myndbandi sem Ævar Leví Pierreson tók en hann er sonur Pierres D. Jónssonar, eiganda Nautáss, sem hefur séð um dreifingu áburðarins undanfarin ár.

Í sumar var dreift tilbúnum áburði á um 20 hektara á Heiðarlæk en kjötmjöli og hænsnaskít á um 60 hektara, samtals um 70 tonnum af tilbúnum og lífrænum áburði. Á svæðinu sem myndbandið sýnir voru gróðursettar vorið 2024 samtals um 105.000 trjáplöntur, mest af birki eða um 66.000 plöntur, um 15.000 aspir og um 25.000 af stafafuru. Í haust verða svo 65.000 tré gróðursett til viðbótar í þetta svæði, megnið birki. Í heildina hafa verið gróðursett um 800.000 tré á jörðunum Heiðarlæk, Heiðarbakka og Heiðarbrekku.

Kjötmjöl hefur reynst afar vel til uppgræðslu á Suðurlandi. Jafnvel þótt gróður sé lengur að bregðast við slíkri áburðargjöf en tilbúnum áburði endast áburðaráhrif kjötmjölsins lengur auk þess sem kjötmjölið ýtir undir aukið jarðvegslíf. Slík áburðargjöf er því mjög gagnleg til að byggja upp gróður- og jarðvegshulu sem dugar til að koma gróðurframvindu í gang, myndar fræset fyrir margvíslegan gróður og eykur líkur á að gróðursettar trjáplöntur komist á legg. Þetta hefur ekki síst komið vel í ljós í Hekluskógaverkefninu sem snýst um endurheimt birkiskóglendis á áhrifasvæði Heklu.

Októ Einarsson fékk Landgræðsluverðlaunin árið 2023 fyrir ötult landbótastarf sitt á Heiðarlæk og aðliggjandi jörðum. Umfang starfsins hefur stöðugt aukist með árunum. Heildarstærð þess svæðis sem þegar hefur verið unnið á er nú um 200 hektarar og af nógu er að taka enn.

Hér sést hversu vel kjötmjölið dreifist yfir landið sem unnið er á. Skjámynd úr myndbandi Ævars Levís Pierresonar