25. júní 2025
25. júní 2025
Kennslustöður á mennta- og vísindadeild
Bergþór Steinn Jónsson, sérfræðingur í bráðalækningum, og Oddur Ólafsson, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum, hafa verið ráðnir í formlegar stöður við mennta- og vísindadeild SAk. Um er að ræða 20% stöður með áherslu á kennslu og fræðslu.

Bergþór lauk sérnámi í bráðalækningum við Mayo Clinic í Minnesota og hefur einnig lokið viðbótarnámi í bráðalækningum barna við Children's Minnesota. Hann hefur leiðbeinendaréttindi í sérhæfðri endurlífgun bæði fullorðinna og barna og hefur þegar hafið störf á deildinni.
Oddur hefur verið virkur í kennslu innan SAk um árabil og býr yfir víðtækri reynslu. Hann hefur leiðbeinendaréttindi í sérhæfðri endurlífgun fullorðinna og barna. Oddur er með sérhæfð réttindi í hermikennslu og hefur verið mjög virkur leiðbeinandi í hermikennslu um árabil. Hann mun hefja störf í formlegri stöðu með haustinu.
Kennsluhlutverk sjúkrahússins er mjög mikilvægt
„Oddur og Bergþór hafa verið mjög liðtækir í kennslu á deildinni og með því að fá þá í formlegar stöður þá er þeim enn frekar tryggt svigrúm fyrir þetta mikilvæga verkefni sem þróun á fræðslu deildarinnar er,“ segir Hrafnhildur Lilja, fræðslustjóri mennta- og vísindadeildar SAk.
„Það er ákaflega verðmætt að fá þennan liðsauka. Það er von okkar að þeir geti aðstoðað okkur við að flétta betur saman gæða- og fræðslumálunum og rýnt fræðsluáætlun sjúkrahússins. Það er nauðsynlegt að klínísk kennsla sé í stöðugri þróun og hafi vægi í starfsemi sjúkrahússins – þannig er hugað að sí- og endurmenntun starfsmanna ásamt öryggismenningu,“ segir Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar SAk.