16. desember 2024
16. desember 2024
Jólalegt starfsfólk húsumsjónar og tæknideildar vekur athygli
Varasöm piparkökuuppskrift á bakhliðinni.
Starfsfólk húsumsjónar og tæknideildar á göngum SAk hefur vakið gleði og athygli í jólalegum búningum sínum nú í aðdraganda jóla. Sérstaka athygli vekur varasöm piparkökuuppskrift sem prýðir bakhlið treyjanna, en búningarnir eru ávöxtur langþráðs draums starfsfólksins.
„Það voru gleðigjafar innan húsumsjónar sem komu með þessa skemmtilegu hugmynd og fengu tæknideildina með sér í lið. Margar hugmyndir voru ræddar um hvað ætti að prýða bakið en að lokum varð þessi piparkökuuppskrift fyrir valinu. Það verður spennandi að sjá hvað verður á bakinu að ári,“ segir Stefán Helgi Garðarsson, deildarstjóri rekstrardeildar.
Jólaskapið smitar sig um allt sjúkrahúsið og hefur annað starfsfólk SAk einnig tekið upp á því að klæðast jólabúningum í tilefni hátíðarinnar. Fjölbreyttar og skemmtilegar útfærslur má sjá á deildum og einingum víða um sjúkrahúsið.