4. maí 2023
4. maí 2023
Jákvæð heilsa og Heilsuhjólið
Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) varð fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana til að innleiða hollenska hugmyndafræði um jákvæða heilsu.
Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) varð fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana til að innleiða hollenska hugmyndafræði um jákvæða heilsu. Skrifað hefur verið undir samninga þess efnis milli HSA, þriggja austfirskra sveitarfélaga og Institute for Positive Health.
Institute for Positive Health í Hollandi hefur undanfarin ár þróað hugmyndafræðina um jákvæða heilsu sem Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur tekið upp í samstarfi við Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstað. Með hugmyndafræðinni er að vissu leyti snúið við ríkjandi hugsun í heilbrigðisþjónustu sem einblínir oft á skyndilausnir við óþægindum og einstaklingurinn skilgreindur sem sjúklingur.
Í staðinn er horft á einstaklinginn sjálfan og almenna líðan hans út frá sex meginstoðum: Andlegri heilsu, tilgangi í lífinu, daglegri virkni, félagslegri þátttöku lífsgæðum og líkamlegri getu. Út frá þessu mati er einstaklingum vísað á viðeigandi úrræði, sem oft eru hvorki frekari læknismeðferð né lyfjagjöf. Greinargóð umfjöllun um hugtakið Jákvæða heilsu er hægt að nálgast á vefsíðu www.velvirk.is.
Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, segir bæði ógnvekjandi og spennandi að vera fyrst íslenskra stofnana til að taka upp hugmyndafræði jákvæðrar heilsu en vonar að innleiðingin gangi vel þannig að HSA verði fyrirmynd annarra heilbrigðisstofnana. Á haustmánuðum 2020 hélt Institute for Positive Health fræðslu fyrir starfsmenn Heilbrigðisstofnun Austurlands þar sem meðal annars var fjallað um hvernig stofnunin getur tileinkað sér aðferðafræðina í daglegu starfi.